Þeir sem halda að við búum við skandinavískt kerfi í almannatryggingum fara villur vegar!
Á fjömennum fræðslufundi Landssamtaka lífeyrissjóða s.l. mánudag hélt Stefán Ólafsson, prófessor og forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskólans erindi um "Íslensku leiðina" í velferðarmálum. Stefán fjallaði um íslensku leiðina um skipan velferðarríksins og árangur í velferðarmálum Íslendinga með víðtækum samanburði við aðrar þjóðir. Sýnt var fram á hvernig þjóðfélags- og stjórnmálaaðstæður mótuðu sérstaka leið í skipan velferðarmála hér á landi sem víkur umtalsvert frá leið frændþjóðanna á Norðurlöndum. Í erindi Stefáns kom fram að þó Ísland tilheyri sama almenna flokki réttindakerfa og hin norrænu löndin, þá ber talsvert í milli þjóðanna í umfangi og örlæti réttindakerfanna og því flokkast Ísland með löndum eins og Bretlandi, Nýja-Sjálandi og Ástralíu! Íslenska þjóðfélagið er minna velferðar- og forsjárþjóðfélag og meira vinnu- og sjálfsbjargarþjóðfélag. Styrkleiki íslenska velferðarkerfisins liggur aðallega í því að útgjaldavandi kerfisins er lítill, samanborið við aðrar þjóðir, svo og í skynsamlegu og hagstæðu kerfi lífeyrissjóða. Veikleikinn er helst sá að lífeyrir almannatrygginga er lágur og að afkoma lágtekjufólks er lakari en hjá frændþjóðunum í Skandinavíu.