Sjóðirnir hafa staðið sig ágætlega á verðbréfamörkuðunum.

Í ágætum leiðara í Morgunblaðinu í dag, er fjallað um fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Leiðarahöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki verði annað séð en að íslensku lífeyrissjóðirnir hafi flestir staðið sig ágætlega í þeirri ólgu er ríkt hefur á verðbréfamörkuðum undanfarin ár.

Leiðarinn er hér birtur orðréttur: Óhjákvæmileg afleiðing þeirrar miklu lækkunar er orðið hefur á gengi hlutabréfa um allan heim að undanförnu er að eignir lífeyrissjóða hafa minnkað umtalsvert. Íslenskir lífeyrissjóðir eru þar engin undantekning. Samkvæmt efnahagsyfirliti frá Seðlabanka Íslands minnkuðu eignir íslenskra lífeyrissjóða í erlendum verðbréfum um sex milljarða frá áramótum til maíloka. Gera má ráð fyrir að þessi lækkun sé nú orðin enn meiri en á síðustu tveimur vikum hefur Dow Jones-hlutabréfavísitalan bandaríska lækkað um 900 stig eða um 10%. Ekkert bendir til að þessari þróun verði snúið við á allra næstu mánuðum. Að auki má ætla að áframhaldandi styrking krónunnar dragi enn frekar úr verðmæti hinnar erlendu eignar, í íslenskum krónum talið. Á meðan allt leikur í lyndi og hækkun á gengi hlutabréfa virðist vera náttúrulögmál fer yfirleitt lítið fyrir gagnrýni á fjárfestingastefnu sjóða, hvort sem um er að ræða lífeyrissjóði eða almenna hlutabréfasjóði. Þeir sem hafa uppi varnaðarorð eru taldir úr takt við raunveruleikann. Þegar að kreppir er hins vegar líklegra að menn staldri við og velti fyrir sér hvort sparifé þeirra sé ávaxtað á réttan hátt. Um síðustu áramót námu heildareignir íslenskra lífeyrissjóða 648 milljörðum króna og þar af voru 137 milljarðar eða 21,1% í erlendum verðbréfum. Í lok maí hafði hlutfall erlendra verðbréfa lækkað í 19,6%. Þá liggur einnig fyrir að raunávöxtun flestra lífeyrissjóða landsins var neikvæð á árunum 2000 og 2001. Það er raunar ekki bundið við Ísland heldur á það við um flesta sjóði jafnt í Bandaríkjunum sem Evrópu að raunávöxtun var neikvæð á þessum árum vegna lækkunar á gengi hlutabréfa. Í mörgum tilvikum er raunávöxtunin mun neikvæðari en hjá íslensku sjóðunum. Þótt eflaust megi tína til dæmi um glannalegar fjárfestingar í einstaka tilvikum verður ekki annað séð en að íslensku sjóðirnir hafi flestir staðið sig ágætlega í þeirri ólgu er ríkt hefur á verðbréfamörkuðum undanfarin ár. Þá ber líka að hafa hugfast að fjárfestingar sjóðanna eru langtímafjárfestingar og tímabundnar sveiflur skipta ekki mestu máli heldur að til lengri tíma sé ávöxtunin stöðug. Engu að síður er nauðsynlegt að stöðugt endurmat fari fram á því, hvernig því mikla fjármagni sem streymir um þessa sjóði er varið. Óhjákvæmilegt er að hluti fjárfestinga lífeyrissjóðanna sé í erlendum verðbréfum. Annars vegar til að dreifa áhættunni og hins vegar vegna smæðar íslenska markaðarins. Markaðsvirði hlutabréfa á Verðbréfaþingi Íslands nemur um 450 milljörðum sem er töluvert lægri upphæð en heildareign lífeyrissjóðanna. Því má hins vegar aldrei gleyma að sveiflur geta verið miklar á erlendum mörkuðum og þar geta menn brennt sig illa sé ekki farið með gát. Eigendur lífeyrissparnaðarins geta þar að auki ekki valið sér lífeyrissjóð heldur eru skyldaðir til að greiða í ákveðna sjóði eftir starsfsgreinum. Því hlýtur krafan um gegnsæja og íhaldssama fjárfestingastefnu, jafnt þegar kemur að innlendum sem erlendum verðbréfum, að verða enn sterkari en ella.