Sjálfbærar stórframkvæmdir í vegagerð kynntar fulltrúum lífeyrissjóða

Myndin er tekin að skýrast verulega af því hvernig staðið verður að tilteknum framkvæmdum í vegagerð sem upphaflega komust á dagskrá í tengslum við svokallaðan stöðugleikasáttmála ríkisstjórnar, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka á vinnumarkaði og í atvinnulífinu frá 25. júní 2009. Málið var kynnt og rætt í gær á fundi fulltrúa lífeyrissjóða víðs vegar að af landinu í gær, þar sem einnig voru nýr samgönguráðherra, forveri hans, vegamálastjóri og fleiri embættismenn.

Kynningarfundurinn á Grand Hóteli var á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða og hann sóttu um 80 manns. Í fyrri hálfleik fundarins kynntu Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital fjárfestingarbanka, fyrirhugaðar vegaframkvæmdir og fjármögnun þeirra. Ögmundur Jónasson, nýr ráðherra samgöngumála ávarpaði sömuleiðis fundarmenn og lýsti því yfir að hann hefði óskað eftir því við forvera sinn í ráðherrastóli, Kristján L. Möller, að hann yrði áfram í forystu í viðræðum um vegaframkvæmdirnar við lífeyrissjóðina af hálfu samgönguráðuneytisins, „til að halda samfellu í málinu af ríkisins hálfu.“

Gestirnir svöruðu fyrirspurnum og viku síðan af fundi. Í síðari hálfleik samkomunnar fjallaði Pálmi Kristinsson, verkfræðingur og ráðgjafi Landssamtaka lífeyrissjóða varðandi verkefnafjármögnun, ítarlega um stöðu málsins og fundarmenn fengu tækifæri til að gera athugasemdir og leita svara við spurningum.

Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, stýrði fundinum og minnti á að í aðdraganda stöðugleikasáttmálans hefði sérstakur aðgerðahópur lífeyrissjóða verið settur á laggir  vegna viðræðna við stjórnvöld  um tilteknar framkvæmdir. Fulltrúar aðgerðahópsins áttu þá  nokkra fundi með stjórnvöldum en það var ekki fyrr en Alþingi samþykkti lög 16. júní 2010, um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir og um komu að Greiðri leið ehf., félagi til undirbúnings göngum undir Vaðlaheiði, að skriður komst í raun á viðræðurnar.

Tvö félög stofnuð

Samningamenn lífeyrissjóðanna, samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar hafa haldið á spöðunum undanfarnar vikur og átt alls 23 viðræðu- og vinnufundi frá og með 6. júlí í sumar. Hugmyndir hafa þar skýrst verulega um hvernig staðið skuli að málum.

Gert er nú ráð fyrir því að stofna opinbert hlutafélag í eigu ríkisins um framkvæmdir á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut. Það félag yrði í raun einungis „skel“ Vegagerðarinnar utan um verkefnið, fjármögnunin verður eingöngu með lánsfé – útboði skuldabréfa til 25 ára eftir að endurgreiðslutími hefst. Bréfin skulu skráð í Kauphöll Íslands og verða án ríkisábyrgðar. Lán vegna stofnkostnaðar  verða greidd niður með veggjöldum en Vegagerðin greiðir rekstrarkostnað félagsins.

Annað félag yrði stofnað um Vaðlaheiðargöng.Þar er gert ráð fyrir því að ríki og sveitarfélög leggi inn hlutafé en að ríkið eigi 51% hlutafjár. Lánsfjár verður jafnframt aflað með skuldabréfaútboði á markaði, á sama hátt og í félaginu um suðvesturleiðir.

Arðsemi Vaðlaheiðarganga er talsvert minni en arðsemi framkvæmdanna á suðvesturhorninu og óvissa/áhætta þar af leiðandi meiri, sé ltið á málið af sjónarhóli fjárfesta. Þess vegna verður staðið öðru vísi að uppbyggingu félags um göngin undir Vaðlaheiði en framkvæmdirnar fyrir sunnan. Það má sömuleiðis gera ráð fyrir að mismikil áhætta í verkefnunum birtist í mismunandi kjörum á lánsfé í skuldabréfaútboðum.

Spalarmódelið ekki fyrirmynd

Það blasir sem sagt við að þarna  verði farin leið í framkvæmdum og fjármögnun sem er fjarri „Spalarmódelinu“ í Hvalfjarðargöngum forðum.  Hvalfjarðargöng voru gerð á vegum einkafélags, Spalar, en verktakinn, Fossvirki, bar ábyrgð á tæknilegri framkvæmd og fjármögnun á byggingartíma. Bandarískt líftryggingafélag og íslenskir lífeyrissjóðir fjármögnuðu síðan verkefnið til langs tíma án ríkisábyrgðar, eftir að göngin voru tekin í gagnið sumarið 1998.

Umræddar framkvæmdir á suðvesturhorninu og undir Vaðlaheiði verða á forræði ríkisins og Vegagerðarinnar en gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðir kaupi skuldabréf á markaði og láni þannig til framkvæmdanna, án ríkisábyrgðar.

Áætlaður framkvæmdakostnaður er um 31 milljarður króna fyrir öll fjögur verkefnin (Suðurlandsveg, Vesturlandsveg, Reykjanesbraut og Vaðaheiðargöng) á árunum 2010-2015. Að virðisaukaskatti meðtöldum er heildarkostnaðurinn áætlaður um 38 milljarðar króna. Fjárþörfin er mest 2012-2014 eða um 8-13 milljarðar króna á ári.

Sama veggjald á öllum leiðum

Aldrei var nefnt á kynningarfundinum í gær hve hátt veggjald yrði innheimt og því svarað til að fyrst þyrfti að semja um kjör á lánsfé og binda fleiri lausa enda í málinu áður en hægt væri að nálgast niðurstöðu varðandi gjaldið. Hins vegar kom fram að sama veggjald yrði innheimt á hvern ekinn kílómetra á leiðunum út frá Reykjavík til að gæta jafnræðis gagnvart notendum.

Verkefnin umræddu er misjafnlega vel undirbúin núna. Vaðlaheiðargöng eru þar lengst komin og væri í raun nánast hægt að bjóða þau út strax á morgun.  Hin verkefnin eru mislangt komin í undirbúningi en þar er í öllum tilvikum um að ræða að fjölga akreinum, gera mislæg gatnamót og tilheyrandi.

  • Lokið verður við að tvöfalda Reykjanesbraut.
  • Vesturlandsvegur verður tvöfaldaður á Kjalarnesi, frá enda væntanlegrar Sundabrautar að Hvalfjarðargöngum. 
  • Suðurlandsvegur verður tvöfaldaður að hluta milli Reykjavíkur og Selfoss en þar verða líka áfram svokallaðir 2+1 kaflar, þ.e. til skiptis ein akrein í aðra áttina en tvær akreinar í hina.

Einn af lausu endunum varðandi Suðurlandsveg er ný brú á Ölfusá. Tveir staðir koma til greina og upplýst var á fundinum að niðurstaða fengist á næstu vikum hvar Ölfusá yrði brúuð. Reyndar kviknaði sú hugmynd á Suðurlandi að nýta nýju brúna jafnframt sem stíflu rennslisvirkjunar í ánni. Verið er að kanna hvort slíkt sé raunhæft en virkjunarhugmyndin verður samt ekki látin tefja framgang málsins.

Æskilegt að ljúka næsta áfanga viðræðna fyrir áramót

Þessi vegagerðarverkefni eru í heild sinni afar umfangsmikil og þar er í mörg horn að líta. Margt hefur skýrst á samningafundum undanfarna tvo mánuði en raunhæft er að ætla að taka muni nokkra mánuði til viðbótar að festa alla þá enda sem enn eru lausir svo hægt verði að ganga frá formlegum samningum.

Samningamenn Landssamtaka lífeyrissjóða telja afar æskilegt að ljúka öðrum áfanga viðræðna þannig að hægt verði að kynna verkefnið á öðrum svona stórum fundi fulltrúa lífeyrissjóðanna og í stjórnum einstakra lífeyrissjóða fyrir árslok 2010.  

Í framhaldinu yrði síðan gengið frá formlegum samningum ríkisvalds og lífeyrissjóða um fjármögnun stórframkvæmda í vegamálum, ef menn á annað borð ná saman um allt það sem út af stendur nú.