Fulltrúar sextán lífeyrissjóða innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða stofnuðu formlega í dag Framtakssjóð Íslands, nýtt fjárfestingarfélag sem ætlað er að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins.
Stofnendur hafa skuldbundið sig til að leggja nýja fjárfestingarsjóðnum til um 30 milljarða króna í hlutafé. Enn er opið fyrir skráningu hlutafjár í sjóðnum.
Í skilmálum fyrir Framtakssjóð Íslands er kveðið á um að hann muni ávaxta innborgað fé með fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll. Markmiðið er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta.
Á stofnfundinum var kjörin sjö manna stjórn Framtakssjóðs Íslands. Hana skipa Ágúst Einarsson, Auður Finnbogadóttir, Baldur Vilhjálmsson, Guðfinna Bjarnadóttir, Ragnar Önundarson, Þorkell Sigurlaugsson og Vilborg Loftsdóttir. Varamenn stjórnar eru Sigurbjörn Sigurbjörnsson, Ólafur Sigurðsson, Helga Indriðadóttir og Kristján Örn Sigurðsson. Gert er ráð fyrir að starf framkvæmda-stjóra sjóðsins verði auglýst innan tíðar.
Sjóðnum er heimilt að fjárfesta erlendis, til dæmis vegna markaðssóknar íslenskra fyrirtækja, ekki síst þegar möguleiki er á sameiningu eða samruna við fyrirtæki í eigu sjóðsins hér á landi. Sjóðurinn mun taka þátt í fjárfestingum sem stuðla að hagræðingu eða samruna fyrirtækja.
Stjórn sjóðsins mun setja honum fjárfestingarstefnu að fenginni umsögn sérstaks tólf manna ráðgjafarráðs sem skipað verður samkvæmt tilnefningum hluthafa.
Sjóðurinn mun setja sér hluthafastefnu sem gerð verður grein fyrir opinberlega þegar þar að kemur. Þar verður meðal annars horft til reglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (reglna sem nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir eiga nú þegar aðild að). Reglurnar taka til umhverfislegra og félagslegra þátta í starfsemi fyrirtækja auk góðra stjórnarhátta. Sjóðurinn mun setja sér almenn viðmið varðandi umhverfismál, félagslega ábyrgð og mannréttindi.
Gert er ráð fyrir nýfjárfestingum á vegum sjóðsins á næstu þremur árum og að sjóðurinn verði starfræktur í alls sjö ár. Heimild er samt fyrir því að framlengja rekstrartímann í tvígang, í eitt ár í senn.