Þannig hljóðaði fyrirsögn í leiðara Morgunblaðsins, 21. maí 1969, þegar samið var um almenna þátttöku launþega að lífeyrissjóðum. LL-FRÉTTIR rifja upp þennan gagnmerka leiðara og það heillaspor sem stigið var á vordögum 1969.
Í upphafi leiðarans er fjallað um samkomulag ASÍ og VSÍ frá 19. maí, þar sem m.a. var samið um almenna þátttöku launþega að lífeyrissjóðum. Þar segir m.a.: "Það er samdóma álit allra þeirra sem fjallað hafa um það samkomulag sen nú hefur verið gert milli verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda, að merkasti þáttur þess sé ákvörðunin um að koma á fót lífeyrissjóðum fyrir verkafólk og að taka upp frá næstu áramótum (innskot: 1.janúar 1970) lífeyrisgreiðslur til aldraðra verkamanna og kvenna". Síðan er fjallað um undanfara laganna um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum og þess getið að ríkisstjórnin hafi heitið að fjármagn verði tryggt til þess að hefja greiðslur lífeyris til verkafólks sem náð hefur sjötugs aldri og að það njóti sömu réttinda og þeir sem hafa verið í lífeyrissjóði í 15 ár. Orðrétt segir m.a.: "Hins vegar hefur ekki fyrr en nú verið gerðar ráðstafanir til þess að tryggja félagslegt öryggi þessa fólks, sem unnið hefur erfiðisvinnu allt sitt líf og að meginhluta til verið í hópi láglaunafólks. Nú hefur verið stigið myndarlegt spor til þess að tryggja afkomu þessa fólks í ellinni og er það sérstakt fagnaðarefni." Í lok þessa merkilega leiðara úr Morgunblaðinu, 21. maí 1969, segir svo: "Þegar fram líða stundir mun koma í ljós að samningarnir nú um lífeyrissjóðina eru einhver mesta kjarabót sem láglaunamenn hafa náð fram um langt skeið. Þessi þáttur samninganna er einnig í rökréttu samhengi við þá stefnu jafnréttis og félagslegs öryggis, sem almenn samstaða er um í landinu."