Fjármálaráðuneytið hefur nú svarað Félagi eldri borgara um ýmis atriði sem varða skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Í svarbréfinu staðfesta stjórnvöld sérstöðu lífeyrissjóðanna og skatthlunnindi þeirra.
Félag eldri borgara telur að leggja eigi 10% fjármagnstekjuskatt á vaxtahluta lífeyrisgreiðslanna í stað tekjuskatts, en vaxtahlutinn geti numið allt frá 67% til 85% af útborguðum lífeyri. Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins er talið að ekki séu lögfræðilegar, tryggingafræðilegar eða tölfræðilegar forsendur til að breyta núgildandi tilhögun um skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Þessi tilhögun samrýmist fyllilega skattlagningarákvæðum og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Jafnframt sé hún studd tryggingafræðilegum rökum þar sem lífeyrissjóðirnir gegni mikilvægu hlutverki í lífeyristryggingakerfi landsmanna en séu ekki einungis sérstakt sparnaðarform. Þá tekur ráðuneytið fram að almennt sé ekki beint samband á milli þeirra iðgjalda sem hver og einn greiðir í lífeyrissjóð og þess lífeyris sem hann fær síðan úr sjóðnum. Örorkulífeyrisgreiðslur og aðrar tryggingar vega sífellt þyngra í útgreiðslum lífeyrissjóða og þeir sem verða fyrir skakkaföllum snemma á lífsleiðinni fá eðlilega meiri greiðslur úr sjóðunum en iðgjald þeirra og ávöxtun segja til um. Þá ráði ævilengd mestu um það hversu miklar ellilífeyrisgreiðslur hver og einn fær úr viðkomandi lífeyrissjóði. Það sé ekki síst vegna þessara sérstöðu sem lífeyrissjóðirnir njóti víðtækra skatthlunninda. Breyting í þá veru sem Félag eldri borgara fari fram á myndi bjóða heim misræmi í skattlagningu lífeyrisgreiðslna og bóta almannatrygginga og kalla á endurskoðun á skattfrelsi lífeyrissjóðanna. Ráðuneytið telji því ekki gerlegt að verða við erindi Félags eldri borgara. Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða er sammála niðurstöðu fjármálaráðuneytisins.