Sérlega góður árangur: Gildi-lífeyrissjóður með 17,8% raunávöxtun og hækkar réttindi um 7%.

Nafnávöxtun Gildis-lífeyrissjóðs var 22,6% á árinu 2005 eða 17,8% raunávöxtun. Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að leggja til við ársfund að áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega verði hækkuð um 7% frá 1. janúar 2006.

Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár er 8,6%. Þessa góðu ávöxtun á nýliðnu ári má rekja til fjárfestingarstefnu sjóðsins og hagstæðra skilyrða á verðbréfamörkuðum, sérstaklega innanlands. Innlend hlutabréf sjóðsins hækkuðu um 71,5% á sama tíma og Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 64,7%, en vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni sjóðsins jókst á árinu. Erlend hlutabréfaeign sjóðsins hækkaði um 16,3% í krónum en heimsvísitalan hækkaði um 12,2%.

Fjárfestingartekjur námu samtals 33,3 milljörðum króna og hækkuðu um tæpa 10 milljarða á milli ára. Hrein eign til greiðslu lífeyris var 181,3 milljarðar kr. í árslok 2005 og hækkaði hún um 35,5 milljarða frá fyrra ári eða 24,4%. Eignaskiptingin var með eftirfarandi hætti í árslok 2005: 53% af eignum sjóðsins voru í innlendum skuldabréfum, 25% í innlendum hlutabréfum og 22% í erlendum verðbréfum.

Á árinu greiddu tæplega fjögur þúsund launagreiðendur iðgjöld til sjóðsins, samtals að fjárhæð 6627 milljónir króna, fyrir um 39 þúsund sjóðfélaga. Sjóðfélagar í árslok 2005 voru um 164 þúsund  Lífeyrisgreiðslur námu 4125 milljónum króna og heildarfjöldi þeirra sem fékk greiddan lífeyri á árinu var 13.629.

Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt sem miðast við stöðu sjóðsins í árslok 2005 eru eignir 10,8% umfram heildarskuldbindingar.