Seðlabankinn: Lífleg viðskipti með erlend hlutabréf í ágúst.

Velta innlendra aðila með erlend verðbréf í ágúst var um 10,8 ma.kr. Kaup námu 6,1 ma.kr. og sala/innlausn um 4,7 ma.kr. Nettó kaup fyrstu átta mánuði þessa árs eru um 30,1 ma.kr., en á sama tíma í fyrra voru þau um 18,9 ma.kr. Þessar upplýsingar koma fram hjá tölfræðisviði Seðlabanka Íslands.

Fram kemur hjá Seðlabankanum að í ágústmánuði voru lífleg viðskipti með hlutabréf erlendra fyrirtækja. Þó ber að hafa í huga að nettókaup ágústmánaðar í erlendum hlutabréfum eru einungis 494 m.kr og skýrist það einkum af því að sveiflur hafa einkennt erlenda hlutabréfamarkaði og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Sem dæmi má nefna að Dow Jones hlutabréfavísitalan féll hratt í júlílok og fjárfestar biðu því átekta. Í ágústbyrjun lifnaði aftur yfir markaðnum og fjárfestar hófu að kaupa bréf að nýju en einnig virðist sem að fjárfestar hafi notað tækifærið og selt bréf sín til að leysa út gengishagnað. Þó að íslensk fjármálafyrirtæki fjárfesti víða erlendis, á stór hluti viðskiptanna sér stað í Bandaríkjunum. Hlutabréfaverð í Evrópu hefur hins vegar mikla fylgni við markaðinn í Bandaríkjunum. Ávöxtun á erlendum skuldabréfamörkuðum hefur almennt verið fremur slök síðustu mánuði og skýrir það að einhverju leyti minni veltu skuldabréfaviðskipta í ár. Fyrstu átta mánuði þessa árs var veltan um 5,8 ma.kr. en 9,0 ma.kr. á sama tíma árið 1999.