Samtök atvinnulífsins hafa gefið út Íslenska lífeyriskerfið í umbreytingu. Þar er í fyrsta sinn lagt mat á samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða næstu áratugina en líkur eru á að smám saman verði hlutverk lífeyrissjóðanna yfirgnæfandi þegar kemur að greiðslu lífeyris í stað hins opinbera. Í skýrslunni er dregin upp mynd af framtíðarþróun íslenska lífeyriskerfisins og þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir. Til að varpa ljósi á þessar áskoranir gerðu SA könnun á tryggingafræðilegum uppgjörum 15 lífeyrissjóða. Um framreikning á lífeyrisgreiðslum næstu áratugi sá Bjarni Guðmundsson, tryggingastærðfræðingur.
Helstu niðurstöður er að finna í samantekt skýrslunnar:
„Íslenska lífeyrissjóðakerfið mun breytast mikið á næstu áratugum og líkur eru á að smám saman verði hlutverk lífeyrissjóðanna yfirgnæfandi þegar kemur að greiðslu lífeyris í stað hins opinbera.
Í þessari skýrslu er í fyrsta sinn lagt mat á samspil greiðslna Tryggingarstofnunar ríkisins og lífeyrisgreiðslna lífeyrissjóða. Það leiðir í ljós að meðallífeyrir frá lífeyrissjóðum, sem er nú um 60 þúsund kr. á mánuði, muni tvöfaldast á næstu 25 árum og verða 120 þúsund árið 2030. Nýir lífeyrisþegar fá nú um 80 þúsund kr. á mánuði að meðaltali úr lífeyrissjóðunum en sú fjárhæð mun tvöfaldast á næstu þremur áratugum.
Lífeyrisþegum á Íslandi mun fjölga verulega frá því sem nú er. Eftir þrjá áratugi verða 67 ára og eldri orðnir tvöfalt fleiri en nú. Árið 2045 er því spáð að þeir verði 67 þúsund og 19% íbúanna, eða nálægt því tvöfalt fleiri hlutfallslega en þeir eru nú.
Til að varpa ljósi á þær áskoranir sem íslenska lífeyrissjóðakerfið stendur frammi fyrir, gerðu SA könnun á tryggingarfræðilegum uppgjörum 15 lífeyrissjóða en þær niðurstöður, sem birtar eru í skýrslunni, hafa ekki legið fyrir opinberlega áður. Ævilíkur fólks af báðum kynjum hafa aukist en þrátt fyrir næstum því tvöföldun í fjölda ellilífeyrisþega munu greiðslur almannatrygginga einungis aukast um 50%. Á sama tíma munu greiðslur lífeyrissjóðanna fimmfaldast.
Þróun í átt til færri lífeyrissjóða er hröð og er hugsanlegt að aðeins fjórir til fimm sjóðir muni að lokum standa eftir á almennum vinnumarkaði. Þegar svo verður komið mun skylduaðild að tilteknum sjóði skipta litlu máli en meginmálið verður skylduaðild að lífeyriskerfinu.
Lífeyrissjóðirnir í heild greiddu hærri fjárhæð til ellilífeyrisþega en ríkið árið 2004. Heildargreiðslur þeirra námu 20,4 milljörðum króna samanborið við 19,3 milljarða greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins.
Lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði glíma við vanda vegna aukinnar örorkutíðni og lengri meðalævi. Uppgjör ársins 2004 leiða í ljós að vanmat á framtíðarörorkubyrði sjóðanna hefur verið töluvert á undanförnum árum. Einkum er tíðni örorku hjá konum mun meira en áður var talið. Þrátt fyrir góða ávöxtun eigna lífeyrissjóðanna á árinu 2004 versnaði tryggingafræðileg staða þeirra á árinu.
Viðfangsefni lífeyrissjóðanna eru gríðarlega mikilvæg fyrir framtíðarvelferð þjóðarinnar. Sjóðirnir í heild eru mikið afl á innlendum verðbréfa- og hlutabréfamarkaði og meginuppspretta sparnaðar í landinu. Vöxtur eigna lífeyrissjóðanna hefur verið mikill undanfarin ár og nemur vöxturinn tæpum 90% að raungildi frá árinu 1997 til 2004 eða 12% árlega að meðaltali.”