Ýmsir helstu aðilar verðbréfamarkaðarins hafa tekið höndum saman um sérstakt samstarfsverkefni um framþróun markaðarins. Fjórir málefnahópar, skipaðir fulltrúum af verðbréfamarkaðinum, hafa þegar tekið til starfa. Landssamtök lífeyrissjóða eiga aðild að þessu samstarfsverkefni.
Ýmsir helstu aðilar verðbréfamarkaðarins hafa tekið höndum saman um sérstakt samstarfsverkefni um framþróun markaðarins. Fjórir málefnahópar, skipaðir fulltrúum af verðbréfamarkaðinum, hafa þegar tekið til starfa. Fjalla þeir m.a. um samkeppnishæfni markaðarins, um starfshætti og viðskiptahætti, um skráningarkröfur, upplýsingaskyldu og yfirtökureglur, og um markaðssetningu til fjárfesta. Aðild að samstarfsverkefninu eiga Verslunarráð Íslands,Landssamtök lífeyrissjóða, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Fjármálaeftirlitið, Verðbréfaþing Íslands hf og Samtök fjármálafyrirtækja.Verslunarráð hefur umsjón með verkefninu. Framþróun verðbréfamarkaðar hefur verið hröð á Íslandi að undanförnu og margvísleg viðfangsefni á því sviði hafa vakið umræður. Flestum er orðið ljóst hversu mikilvæg þessi þróun er fyrir efnahag og lífskjör í landinu. Miklu máli skiptir að hagsmunaaðilar og þeir aðrir sem búa yfir reynslu og sérþekkingu geti haft sameiginleg áhrif á þróunina og lagt fram málefnalegan skerf einmitt meðan verðbréfamarkaðurinn er í örri mótun og vexti. Fjöldi manna hefur komið að undirbúningi samstarfsverkefnisins. Í verkefnisstjórn sitja fulltrúar þeirra samtaka og stofnana sem nefnd eru framar. Á sumri komanda er í ráði að meta árangurinn og ákveða frekari áfanga í samstarfsverkefninu.