Stjórnir Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna hafa undirritað samning um samruna sjóðanna frá og með 1. júní 2005. Samrunasamningurinn verður lagður fyrir ársfundi sjóðanna 27. apríl nk. til staðfestingar. Viðræðunefnd sem skipuð var af stjórnum sjóðanna hefur unnið að málinu frá því í apríl á síðasta ári.
Markmið sameiningarinnar er að tryggja sjóðfélögum þau bestu lífeyrisréttindi sem kostur er á með betri áhættudreifingu sjóðfélaga á atvinnugreinar, öflugri áhættustýringu og ávöxtun iðgjalda svo og hagkvæmari rekstri.
Samþykki ársfundir sjóðanna sameininguna tekur nýr sjóður til starfa 1. júní 2005 og mun hann taka við öllum eignum, réttindum og skuldbindingum eldri sjóðanna. Frá þeim tíma munu sjóðfélagar ávinna sér réttindi samkvæmt nýju aldurstengdu réttindakerfi.
Lífeyrissjóðurinn Framsýn og Lífeyrissjóður sjómanna eru þriðji og fjórði stærstu lífeyrissjóðir landsins og námu samanlagðar eignir sjóðanna í árslok 2004 144,8 milljörðum króna. Ávöxtun á síðasta ári var mjög góð, 13,6% raunávöxtun hjá Lífeyrissjóðnum Framsýn og 16,3% hjá Lífeyrissjóði sjómanna.