Landssamtök lífeyrissjóða hafa nýverið sent erindi til Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga með ósk um að félagið, í samráði við LL, semji samræmdar tryggingafræðilegar reglur um endurgreiðslur iðgjalda til útlendinga.
Í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eru ákvæði þess efnis að heimilt sé að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara, þegar þeir flytjast af landi brott enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að. Þetta merkir m.a. að ekki er heimilt að endurgreiða iðgjöld til ríkisborgara innan EES, Evrópska efnahagssvæðisins, því það væri brot á jafnræðisreglunni, þar sem ekki er heimilt að endurgreiða Íslendingum iðgjöld úr lífeyrissjóðum. Í lögunum, nánar tiltekið í 19. gr., er áskilið að ekki sé heimilt að takmarka endurgreiðsluna til útlendinga við tiltekinn hluta iðgjaldsins nema á tryggingafræðilegum réttum forsendum. Fyrir gildistöku laganna var iðgjaldahluti sjóðfélagans (yfirleitt 4% iðgjald) endurgreiddur og þá oftast með almennum bankavöxtum. Nú er hins vegar ekki heimilt samkvæmt lögum að miða endurgreiðsluna við tiltekið hlutfall, t.d. 4% iðgjaldahluta sjóðfélagans. Í þeim reglum sem nú eru í smíðum verður m.a. tekið tillit til þess að viðkomandi útlendingur hafði þann tíma sem hann greiddi iðgjöld til viðkomandi lífeyrissjóðs notið tryggingarverndar gagnvart orkutapi eða andláti. Það getur hins vegar farið eftir aldri og fjölskylduaðstæðum sjóðfélagans, svo og iðgjaldagreiðslutíma, hversu stórt hlutfall af heildariðgjaldinu þessi tryggingingarvernd var hjá sjóðnum. Þá flækir auðvitað málið að taka ber staðgreiðsluskatt af endurgreiddu iðgjaldi enda hefur sjóðfélaginn geta dregið iðgjaldahluta sinn frá launum áður en skattur var reiknaður. Sjálfsagt er að óska eftir ljósrit af farseðli þegar um er að ræða endurgreiðslur til útlendinga, sem flytjast af landi brott. Ítrekað skal að íbúar landa innan EES fá ekki endurgreidd iðgjöld. Áunnin lífeyrisréttindi þeirra geymast hér heima í sjóðunum óskert.