Samráðsnefnd um nýtt eftirlaunakerfi í Færeyjum.

Í Færeyjum hafa menn ákveðið að koma á fót eftirlaunakerfi fyrir alla ellilífeyrisþega. Fyrir skömmu var skipuð nefnd, sem fulltrúar atvinnurekenda og launafólks eiga aðild að, með það að markmiði að ná fram niðurstöðu sem getur mótað eftirlaunakerfi sem uppfyllir þarfir allra þjóðfélagshópa, einnig þeirra sem standa utan stéttarfélaga. Það kemur síðan í hlut stjórnmálamanna að taka afstöðu til niðurstöðu nefndarinnar.

Eftirlaunakerfið í Færeyjum er afar slakt og veikburða. Í dag eru um 6000 ellilífeyrisþegar í Færeyjum, en íbúafjöldi er um 48.000 manns. Það er um 12%. Útreikningar segja að ellilífeyrisþegum fjölgi um 1% meira en íbúunum fimmta hvert ár fram til ársins 2032. Það gera um 11.000 ellilífeyrisþega af 60.000 manna þjóð, eða um 18%.

Eitthvað verður að taka til bragðs nú þegar. Ellilífeyririnn er allt of lítill fyrir flesta ellilífeyrisþega til að þeir geti búið við viðunandi lífskjör. Stjórnvöld eða lögþingið hafa ekki viljað hækka ellilífeyririnn með viðunandi hætti, þrátt fyrir loforð um verulegar hækkanir.

 Lög um almannatryggingar voru samþykkt í færeyska lögþinginu 1958 og gengu í gildi árið eftir. Með tilkomu þeirra varð mikil framför í öldrunarþjónustunni. Síðan hafa orðið breytingar til hins betra smátt og smátt. Lögþingið samþykkti lög um eftirlaunafyrirkomulag vinnumarkaðarins sem er viðbót við ellilífeyririnn sem allir fá sem eru orðnir 67 ára.

 Mismunandi fyrirkomulag hefur gilt á vinnumarkaðnum. Opinberir starfsmenn búa við eigið eftirlaunakerfi, sem er öðru vísi en það sem gildir um aðra hópa. Á almennum vinnumarkaði ríkir veruleg ringulreið í eftirlaunamálum þar sem stéttarfélögin ná ekki að vera samstíga, einkum heima í héraði. Menn semja hver fyrir sig við atvinnurekendur og ná mismunandi samningum, einkum þegar eftirlaun eru annars vegar.

 Nokkur stéttafélög hafa á undanförnum árum samið um ákveðnar greiðslur með því að leggja 1 – 2% af tímakaupinu í sjóð sem síðan er greiddur út við 67 ára aldur, annað hvort sem reglulegar mánaðarlegar greiðslur eða sem eingreiðslur. Aðeins einu stéttarfélagi hefur tekist að koma á fót eiginlegu eftirlaunakerfi fyrir félagsmenn sína. Þessi hópur er mjög fámennur þegar litið er til allra starfandi íbúa og fiskimanna í Færeyjum.