Samráðsnefnd skipuð um EES-mál á sviði fjármálaþjónustu.

Viðskiptaráðherra hefur skipað sérstaka samráðsnefnd sem skal vera vettvangur fyrir stjórnvöld til að miðla upplýsingum um EES-mál á sviði fjármálaþjónustu.

Árið 1999 samþykkti Evrópusambandið aðgerðaráætlun á sviði fjármagnsmarkaðar "Financial Services - Implementing the Framework for Financial Marklets: Action Plan." Markmiðið er að skapa skilvirkan sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónustu. Miðað er við að allar tillögur aðgerðaráætlunarinnar verði komnar í framkvæmd árið 2005 og er mikil vinna framundan við mótun laga og reglna á sviði fjármálaþjónustu. Mikilvægt er því að virkt samráð sé milli viðskiptaráðuneytisins, eftirlitsaðila og fjármálafyrirtækja um málið. Í því skyni hefur viðskiptaráðherra skipað eftirtalda í samráðsnefnd um EES-mál á sviði fjármálaþjónustu: Aðalstein Jónasson, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Benedikt Árnason, viðskiptaráðuneyti, formaður, Guðjón Rúnarsson, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Hallgrímur Ásgeirsson, Seðlabanka Íslands, Hrafn Magnússon, Landssamtökum lífeyrissjóða, Högni S. Kristjánsson, utanríkisráðuneyti, Kjartan Gunnarsson, viðskiptaráðuneyti, Ólafur A. Sigurðsson, Verðbréfaþingi Íslands hf., Páll Gunnar Pálsson, Fjármálaeftirliti, Sigmar Ármannsson, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sigurður Hafstein, Sambandi íslenskra sparisjóða og Þórður Gunnarsson, Samtökum fjárfesta.