Í dag var undirritað samkomulag milli stjórnvalda og fulltrúa allra lánveitenda fasteignalána hér á landi um samræmd úrræði fyrir einstaklinga og heimili sem eiga í erfiðleikum með að greiða af lánum.
Samkomulagið var undirritað af Ástu R. Jóhannesdóttur félags- og tryggingamálaráðherra, Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra, Guðmundi Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Hrafni Magnússyni, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða og Hlyni Jónssyni formanni skilanefndar SPRON.
Samkomulagið mælir fyrir um að lánveitendur fasteignaveðlána leitist við að tryggja lántakendum sínum eftirfarandi greiðsluerfiðleikaúrræði að uppfylltum tilteknum skilyrðum:
Samningar um uppgjör vanskila: að unnt sé að semja um dreifingu á vanskilum í allt að 18 mánuði.
Rýmingarfrestur í kjölfar nauðungarsölu: að tekið verði aukið tillit til aðstæðna við rýmingu í kjölfar nauðungarsölu og veittur verði rýmingarfrestur allt að þremur mánuðum frá söludegi.
Heimildir til greiðslufrestunar vegna sölutregðu: að komið verði til móts við lántakendur sem hafa keypt fasteign en ekki getað selt fyrri eign vegna aðstæðna á fasteignamarkaði með frystingu greiðslna.
Skuldbreyting vanskila: að boðið verði upp á skuldbreytingu vanskila með því að bæta vanskilum við höfuðstól eða með því að gefa út nýtt skuldabréf eftir ákvörðun kröfuhafa.
Frestun á greiðslum: að lántakandi geti óskað eftir frestun á greiðslu afborgana, að hluta eða fullu, og vaxta og verðbóta, eftir atvikum, í allt að eitt ár í senn og með möguleika á framlengingu í samtals allt að þrjú ár.
Lenging lánstíma: að mögulegt verði að lengja lánstíma lána að því marki sem það getur gagnast lántakanda enda rúmist lenging lánstíma innan lánareglna viðkomandi lánveitanda.
Samkomulagið gerir ráð fyrir að Íbúðalánasjóður veiti fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum upplýsingar og ráðgjöf um beitingu þessar greiðsluerfiðleikaúrræða. Þau koma, eftir atvikum, til viðbótar greiðsluerfiðleikaúrræðum sem lántakendur kunna eiga rétt á samkvæmt lögum. Samkomulagið gildir til ársloka árið 2010. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Sjá hér samkomulagið um beitingu greiðsluerfiðleikaúrræða.