Samkomulag um Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna endurnýjað.

Þann  17. febrúar sl.  var undirritað nýtt samkomulag um rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna ásamt öðrum aðilum að rekstrinum. Aðilar að samkomulaginu eru Landssamtök lífeyrissjóða, félagsmálaráðuneyti, Íbúðalána- sjóður, Reykjavíkurborg, KB-banki, Íslandsbanki, Landsbanki Íslands, Samband íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra sveitarfélaga, Þjóðkirkjan,  Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna og Rauði kross Íslands. Samkomulagið gildir til  31. desember 2007.

Bandalag háskólamanna og Rauði kross Íslands eru nýir aðilar að samstarfinu og er það sérstakt fagnaðarefni. Kreditkort hf. og Samband íslenskra tryggingafélaga hafa verið styrktaraðilar og hafa samþykkt að halda því áfram á samningstímabilinu sem framundan er.

Jafnframt mun á samningstímabilinu verða leitað eftir fleiri aðilum til að styrkja reksturinn, til dæmis til sveitarfélaga og annarra aðila sem koma að þessum málum. Akureyrarkaupstaður og Kópavogsbær hafa gert sérstakan þjónustusamning við Ráðgjafarstofuna fyrir árið 2005 og er unnið að áframhaldandi samstarfi við Sveitarfélagið Árborg.

Ráðgjafarstofan var sett á laggirnar sem tilraunaverkefni á árinu 1996. Frá stofnun Ráðgjafarstofu hafa tæplega 6.000 fjölskyldur á Íslandi fengið aðstoð við að leysa úr fjárhagserfiðleikum sínum. Auk þess hafa nokkur þúsund manns fengið ráðgjöf símleiðis, en símaráðgjöf er veitt alla virka daga. Sérstaða og styrkur Ráðgjafarstofunnar liggur í góðu samstarfi og samvinnu margra aðila sem starfa í samkeppnisumhverfi og að mismunandi hagsmunum. Á vettvangi Ráðgjafarstofunnar sameinast þessir fjórtán aðilar um að leggja fram fjármagn og krafta sína til að leysa vanda íslenskra fjölskyldna og stuðla að fræðslu varðandi fjármál.

Á síðustu árum hafa veikindi, atvinnumissir eða tekjulækkun verið langalgengustu ástæður þess að viðskiptavinir leita til Ráðgjafarstofunnar. Ráðgjafarstofan hefur mikilvægu samfélagslegu hlutverki að gegna varðandi velferð fjölskyldna í landinu og er til staðar þegar eitthvað bjátar á. Ánægjulegt er að svo margir aðilar skuli sameinast undir hatti Ráðgjafarstofunnar til að leysa vanda þeirra sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum. Ráðgjafarstofan er með heimasíðu á vefsvæðinu fjolskylda.is og er þar miðlað ýmsum upplýsingum varðandi greiðsluerfiðleika og þjónustu Ráðgjafarstofunnar.


Samkomulag um Ráðgjafastofu heimilanna í pdf-skjali.