Að undanförnu hafa lífeyrissjóðir verið að færa sig yfir í réttindaávinnslukerfi, sem felur í sér að iðgjöld skapa mismunandi mikil lífeyrisréttindi eftir því hvenær á starfsævinni þau eru greidd, þ.e. svokallað aldursháð réttindakerfi. Sjóðirnir hafa valið nokkrar leiðir við breytingarnar. Ýmsir sjóðir hafa að fyrirmynd Gildis-lífeyrissjóðs hagað breytingunum með þeim hætti, að sjóðfélagar sem uppfylla tiltekin skilyrði geti haldið áfram að mynda réttindi í jafnri ávinnslu að tilteknu hámarki, og eru því sjóðirnir að leitast við að breytingarnar hafi sem minnst áhrif á sjóðfélagana, þegar horft er til réttindaávinnslunnar yfir alla starfsævina.
Fyrir liggur að auk Gildis-lífeyrissjóðs hafa Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Lífeyrissjóður Suðurlands, Lífeyrissjóður Vesturlands, Lífeyrissjóður Austurlands, Lífeyrissjóður Vestfirðinga, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Lífeyrissjóður verzlunarmanna ákveðið að taka upp fyrrgreinda leið blandaðrar ávinnslu réttinda.
Það er þýðingarmikið atriði breytinganna hjá fyrrgreindum lífeyrissjóðum, til að milda áhrif þeirra á þá sjóðfélaga sem ef til vill færast á milli lífeyrissjóða með hliðstæða réttindauppbyggingu, að þeir geri með sér samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu á heimild sjóðfélaga til þess að halda áfram iðgjaldsgreiðslum til jafnrar ávinnslu.
Undirbúningsvinna að gerð samkomulagsins var unnin á vettvangi Landssamtaka lífeyrissjóða. Um aðild að samkomulaginu geta sótt sjóðir eða deildir sjóða, sem hafa á árinu 2003 veitt jöfn réttindi fyrir iðgjöld, óháð aldri, en hafa síðar tekið upp aldurstengda réttindaávinnslu.
Rétt er að taka fram að ákvæði samkomulags um samskipti lífeyrissjóða frá árinu 1999, um réttindi vegna iðgjaldagreiðslna til fleiri en eins lífeyrissjóðs, gilda ekki um rétt til jafnrar ávinnslu réttinda hjá lífeyrissjóðum sem aðild eiga að framangreindu samkomulagi.