Sameining Séreignalífeyrissjóðsins og Frjálsa lífeyrissjóðsins.

Stjórnir Séreignalífeyrissjóðsins og Frjálsa lífeyrissjóðsins hafa komist að samkomulagi um að sameina sjóðina. Sameiningin miðast við  1. apríl s.l. Frjálsi lífeyrissjóðurinn tekur við eignum og skuldbindingum Séreignalífeyrissjóðsins og er hinn sameinaði sjóður rekinn undir nafni Frjálsa lífeyrissjóðsins  og samkvæmt þeim reglum sem um hann gilda.  

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem rekinn af KB banka var stofnaður árið 1978. Hann er fullgildur lífeyrissjóður og tekur við bæði 10% lágmarksiðgjöldum og viðbótariðgjöldum. 

Þann 1. janúar 2004 var stærð sjóðsins um  25,8 milljarðar og fjöldi sjóðfélaga um 26 þúsund. Sameiningin er til hagsbóta fyrir sjóðfélaga beggja sjóða. Með sameiningunni næst mun meiri dreifing á örorku- og dánarhættu í tryggingadeild sjóðsins. Jafnframt lækkar hlutfallslegur kostnaður með stærri sjóði sem gera má ráð fyrir að skili sér í auknum lífeyrisréttindum sjóðfélaga til lengri tíma.
 
Sameiningin er gerð með þeim fyrirvara að könnun endurskoðenda og tryggingastærðfræðinga sjóðanna leiði í ljós að eignir séu sambærilega metnar, uppgjörsaðferð sé sambærileg og að sjóðfélagar verði ekki fyrir skerðingu á séreign og réttindum í tryggingadeild.

Séreignalífeyrissjóðurinn og Frjálsi lífeyrissjóðurinn eru sambærilegir sjóðir. Báðir sjóðirnir starfrækja séreignadeild og aldurstengda tryggingadeild þar sem 10% lögbundin lágmarksiðgjöld skiptast í deildirnar tvær í ákveðnum hlutföllum.

Sameiningin fer þannig fram að þau réttindi sem sjóðfélagar eiga í tryggingadeild í krónum talið verða flutt yfir í tryggingadeild Frjálsa lífeyrissjóðsins. Jafnframt mun sú séreign sem sjóðfélagar eiga í fjárfestingarleiðum Séreignalífeyrissjóðsins verða flutt yfir í sambærilega fjárfestingarleið í Frjálsa lífeyrissjóðnum.