Sameinaður sjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn, hefur starfsemi á nýju ári.

Í gær, þriðjudaginn 17. desember, var samþykkt á sjóðfélagafundum Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga og ALVÍB að sameina sjóðina frá og með 1. janúar nk. Sameinaður sjóður fær nafnið Almenni lífeyrissjóðurinn. Með sameiningunni er stefnt að lækkun rekstrarkostnaðar, auk þess sem áhættudreifing sjóðfélaga eykst verulega.

Almenni lífeyrissjóðurinn mun hefja starfsemi 2. janúar 2003. Sjóðurinn verður tíundi stærsti lífeyrissjóður landsins með um 18 þúsund sjóðfélaga og nema heildareignir um 19 milljörðum króna. Sé miðað við árleg iðgjöld er sjóðurinn sá fjórði stærsti hér á landi. Aðild að Almenna lífeyrissjóðnum er opin öllum, en hann er jafnframt starfsgreinasjóður arkitekta, leiðsögumanna, tónlistarmanna og tæknifræðinga. Sjóðurinn hefur þegar opnað vefsíðu með upplýsingum fyrir sjóðfélaga undir léninu www.almenni.is.

Í Almenna lífeyrissjóðnum geta sjóðfélagar greitt bæði í séreignarsjóð og samtryggingarsjóð. Lágmarksiðgjald (10% af heildarlaunum) er unnt að greiða bæði í samtryggingar- og séreignarsjóð, en þannig sameinar sjóðurinn kosti beggja sjóðsforma. Viðbótariðgjald (viðbótarlífeyrissparnaður) er hins vegar greiddur í séreignarsjóð.

Í Almenna lífeyrissjóðnum geta sjóðfélagar valið á milli fjögurra verðbréfasafna, Ævisafna I, II, III og IV með mismunandi ávöxtun og áhættu. Jafnframt geta þeir valið Ævileiðina, en þá flyst inneign þeirra milli safna eftir aldri.

Rekstur Almenna lífeyrissjóðsins annast eignastýring Íslandsbanka, Kirkjusandi í Reykjavík, sími 440-4900.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, í síma 440-4949 eða 664-4949.