Sameinaði lífeyrissjóðurinn býður nú þeim sem eru á aldrinum 18 – 44 ára og eru með séreignarsparnað hjá sjóðnum sérstaka örorkuvernd. Örorkuvernd er valfrjáls vátrygging ætluð þeim sem eru að koma út á vinnumarkaðinn í fyrsta skipti á meðan þeir ávinna sér rétt til örorkulífeyris hjá lífeyrissjóðum. Örorkuverndin hentar vel ungu fólki sem vill auka við vernd sína komi til langtíma heilsubrests og hún hentar einnig þeim sem hverfa tímabundið af vinnumarkaði, t.d. vegna náms og tapa niður framreikningi til örorkulífeyris.
Réttur til örorkulífeyris hjá lífeyrissjóðum er lítill fyrstu tvö til þrjú ár sjóðsaðildar á meðan réttindum er safnað. Því er brýnast að gera viðbótarráðstafanir til að tryggja vernd þann tíma. Þar sem áföll í lífi fólks gera jafnan ekki boð á undan sér er skynsamlegt að gera fjárhagslegar ráðstafanir á meðan heilsan er í góðu lagi.
Með samningum við Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hefur Sameinaða lífeyrissjóðnum tekist að setja saman góða vátryggingarvernd á mjög hagstæðum kjörum til hagsbóta fyrir yngri rétthafa í séreignarsparnaði sjóðsins. Kröfur um lífsgæði aukast stöðugt en það kallar m.a. á auknar vátryggingar fyrir fjárhagslegum áföllum. Þetta á ekki síst við um ungt fólk sem getur tapað stórum hluta ævitekna sinna verði það fyrir varanlegri skerðingu á starfsorku.
Örorkuverndin er skynsamleg viðbót á því tímabili í lífi fólks þegar útgjaldaþörfin er jafnan mest vegna heimilisreksturs. Verði rétthafi sem er með Örorkuvernd fyrir heilsutjóni vegna sjúkdóms eða slyss og örorka er metin meiri en 50% greiðast bætur í einu lagi til sjóðsins sem ráðstafar eigninni inn á séreignarreikning viðkomandi rétthafa. Bætur greiðast síðan til rétthafans samkvæmt reglum um séreignarsparnað.
Mjög einfalt er að sækja um Örorkuvernd hjá Sameinaða lífeyrissjóðinum. Hafi rétthafi ekki átt við sérstök heilsufarsvandamál að stríða undirritar hann umsókn þar sem yfirlýsing um heilsufar er staðfest um leið og sjóðnum er gefin heimild til að taka iðgjald af séreign viðkomandi hjá sjóðnum.
Telji rétthafi sig ekki geta undirritað einfalda yfirlýsingu um heilsufar getur hann sent inn umsókn á sérstöku eyðublaði sem er þá metið hjá VÍS og viðkomandi fær svar um niðurstöðu. Þegar sjóðnum hefur borist fullnægjandi umsókn tekur vátryggingin gildi skv. skilmála og er vátryggingarskírteinið þá sent í pósti. Iðgjaldið er dregið af séreignarsparnaði, og því ekki um neinn greiðsluseðil að ræða eða færslu á greiðslukort heldur kemur frádregið iðgjald fram á yfirlitum frá sjóðnum og á sjóðfélagavefnum.
Iðgjaldið er háð vátryggingarfjárhæð og aldri þess sem vátryggður er, en með hagstæðum samningum við VÍS bjóðast iðgjöld sem eru mun lægri en almennt gerist. Vátryggingafjárhæðir eru hæstar fyrir 18-24 ára en lækka síðan með aldri og fellur aðild að vátryggingunni niður eftir að 45 ára aldri er náð.