Sameinaði lífeyrissjóðurinn birtir uppgjör: 6,7% hrein raunávöxtun á síðasta ári.

Nafnávöxtun grunndeilda sjóðsins var 10,9% og raunávöxtun 6,7% á árinu 2004. Stærstur hluti eigna sjóðsins eða 60% er í innlendum skuldabréfum. Raunávöxtun þeirra á árinu var 9,0%. Raunávöxtun innlendra hlutabréfa var 23,8%, en þau námu um 10% af eignum sjóðsins í árslok 2004 miðað við 1% í ársbyrjun.

Ávöxtun erlendra hlutabréfa í dollurum var 15,4%. Á móti styrktist íslenska krónan gagnvart erlendum gjaldmiðlum um 8,4% og gagnvart bandaríkjadollar um 14,0% sem leiðir til neikvæðrar ávöxtunar í íslenskum krónum.

Í upphafi ársins 2004 var hlutfall innlendra hlutabréfa af heildareignum 1% en 10% í árslok. Þar sem stór hluti aukningar á innlendum hlutabréfaverði kom fram í fyrri hluta ársins 2004 naut sjóðurinn ekki nema hluta hækkunarinnar. Raunávöxtun sjóðsins hefur að meðaltali verið 5,1% á ári frá stofnun hans 1992. Heildareignir sjóðsins í árslok 2004 námu alls 56.601 m.kr.  

Heildarskuldbinding aldurstengdrar deildar sjóðsins umfram eign er 2,7%. Heildarskuldbining stigadeildar sjóðsins umfram eign er 9,2%.