Sala erlendra verðbréfa umfram kaup nam 978 m.kr. í júní s.l.

Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að sala erlendra verðbréfa umfram kaup nam 978 m.kr. í júní s.l. samanborið við sölu umfram kaup fyrir um 378 m.kr. í sama mánuði árið 2001.

Þróun einstakra undirliða í júní s.l. var eftirfarandi: Hrein sala á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum nam um 854 m.kr. en sala umfram kaup nam 611 m.kr. í sama mánuði árið 2001. Hrein sala á erlendum hlutabréfum nam um 138 m.kr. en hrein kaup í sama mánuði í fyrra námu 192 m.kr. Hrein sala á erlendum skuldabréfum nam um 2 m.kr. en hrein kaup í sama mánuði í fyrra námu um 41 m.kr. Neikvæð nettókaup voru síðast í aprílmánuði sl. og þar áður í desembermánuði 2001. Neikvæð nettókaup í júní eiga sér vafalaust ýmsar skýringar, en að sögn tölfræðisviðs Seðlabankans hefur misjafnt gengi á erlendum verðbréfamörkuðum síðustu misseri samhliða spennandi kauptækifærum hér innanlands vafalaust haft sín áhrif. Nettókaup fyrstu sex mánuði ársins 2002 námu 6.781 m.kr. samanborið við 5.421 m.kr. á sama tímabili í fyrra og samanborið við 26.837 m.kr. árið 2000. Því má segja að nettókaupin það sem af er árinu 2002 séu nokkuð áþekk árunum 1997, 1998 og 2001 en mun minni en nettókaupin fyrstu sex mánuði ársins 1999 og 2000.