"Mikilvægt er að gera frekari breytingar á ákvæðum um fjárfestingar lífeyrissjóða með það að markmiði að gera þær sveigjanlegri og skilvirkari," segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrisjóða, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Fram kemur í greininni að frá gildistöku lífeyrissjóðalaganna hafi hlutfall verðbréfa með breytilegum tekjum og erlendar fjárfestingar aukist til muna. Á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku laganna hafi eignir lífeyrissjóðanna vaxið úr um 300 milljörðum í rúma 1.600 milljarða. Á sama tíma hafi orðið gríðarlegar breytingar á íslenskum fjármálamarkaði sem og á erlendum mörkuðum. Nauðsynlegt sé að rýmka fjárfestingarreglur sjóðanna og ekki sé trúverðugt að setja íslenskum lífeyrissjóðum þrengri fjárfestingarheimildir en erlendum lífeyrissjóðum sem munu mögulega reka starfsemi sína hér á landi.
Greinin er hér birt í heild sinni:
"Á síðum Morgunblaðsins hafa að undanförnu birst greinar um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna og hvort æskilegt sé að sjóðirnir eigi og reki hjúkrunarheimili. Jafnframt hafa verið reifaðar hugmyndir þess efnis að lífeyrissjóðirnir byggi íbúðir og leigi til sjóðfélaga sinna.
Hvað snertir ofangreindar hugmyndir og vangaveltur er það skoðun mín að lífeyrissjóðirnir eigi eingöngu að sinna því hlutverki sínu sem þeim er markað í lögum, þ.e. að veita viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris, sjá um ávöxtun þess og greiða út lífeyri í samræmi við samþykktir viðkomandi sjóða.
Hvað varðar byggingu hjúkrunarheimila eru lífeyrissjóðirnir hins vegar tilbúnir til þess að lána stjórnvöldum og sveitarfélögum til slíkra framkvæmda, enda sé lánað á markaðskjörum. Lífeyrissjóðirnir hafa um langt árabil lánað sjóðfélögum til íbúðakaupa og nema þær lánveitingar nú um 115 milljörðum króna. Auk þess nema lánveitingar lífeyrissjóðanna til Íbúðalánasjóðs um 220 milljörðum króna. Þannig má með fullri sanngirni halda því fram að lífeyrissjóðirnir hafi á umliðnum áratugum sinnt ákaflega vel þörfum sjóðfélaga sinna til íbúðarkaupa.
Með lögum frá árinu 1997 var lífeyrissjóðum í fyrsta sinn sett almenn heildarlöggjöf um starfsemi sína, uppbyggingu sjóðanna, innra skipulag og fjárfestingarheimildir. Þó fjárfestingar lífeyrissjóða lúti ákveðnum takmörkunum fólu þær reglur sem settar voru með lögunum í sér miklar breytingar frá því sem áður var. Fyrir gildistöku laganna voru fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða mun takmarkaðri og var meginhluti fjárfestinga sjóðanna í ríkisskuldabréfum og sjóðfélagalánum.
Frá gildistöku lífeyrissjóðalaganna hefur hlutfall verðbréfa með breytilegum tekjum og erlendar fjárfestingar aukist til muna. Á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku laganna hafa eignir lífeyrissjóðanna vaxið úr um 300 milljörðum í rúma 1.600 milljarða. Á sama tíma hafa orðið gríðarlegar breytingar á íslenskum fjármálamarkaði sem og á erlendum mörkuðum. Þá hefur þekking á fjárfestingum og eignastýringu innan lífeyrissjóðanna byggst upp samtímis því sem þjónusta innlendra fjármálafyrirtækja við lífeyrissjóðina hefur þróast mikið. Lífeyrissjóðirnir eru þannig almennt mjög vel í stakk búnir til að nýta sér þau tækifæri sem felast í þróuðum fjármálamörkuðum og gæta þannig betur hagsmuna sjóðfélaga sinna.
Fyrir tilstuðlan Landsamtaka lífeyrissjóða hafa nokkrum sinnum verið gerðar breytingar á fjárfestingarheimildum sjóðanna. Helst má þar nefna rýmkun á takmörkunum í erlendum fjárfestingum úr 40% í 50% og rýmkun á heimildum til fjárfestinga í hlutabréfum í áföngum úr 35% í 60%. Þá hafa einnig verði gerðar nokkrar aðrar breytingar sem hafa lotið að því að auka svigrúm lífeyrissjóða til að nýta sér betur fjárfestingatækifæri á markaði. Færa má fyrir því sterk rök að þessar breytingar hafi gert lífeyrissjóðinum betur kleift að ávaxta eignir sjóðfélaga sinna en annars hefði orðið.
Þó nokkuð hafi áunnist á umliðnum árum er það mat Landssamtaka lífeyrissjóða að mikilvægt sé að gera frekari breytingar á ákvæðum um fjárfestingar lífeyrissjóða með það að markmiði að gera þær sveigjanlegri, skilvirkari og auka möguleika sjóðanna til að nýta sér betur þau tækifæri sem bjóðast á fjármálamörkuðum. Það byggir á því mati að óbreyttar reglur séu til þess fallnar að setja sjóðunum óþarflega þröng mörk varðandi fjárfestingar sem geti svo leitt til lakari ávöxtunar en ella.
Á nýafstöðnu þingi samþykkti Alþingi frumvarp til laga um starfstengda lífeyrissjóði þar sem ákvæði tilskipunar ESB eru innleidd í íslenskan rétt. Færa má fyrir því gild rök að eðlilegt sé að ætla lífeyrissjóðum á Íslandi sama svigrúm til fjárfestinga og þeim lífeyrissjóðum sem koma til með að falla undir lögin um starfstengda lífeyrissjóði. Það er ekki trúverðugt að setja íslenskum lífeyrissjóðum þrengri fjárfestingarheimildir en erlendum lífeyrissjóðum sem munu mögulega reka starfsemi sína hér á landi.
Eðlilegt er að ákvæðum um fjárfestingarheimildir íslenskra lífeyrissjóða verði breytt á þann veg að flest ákvæði um takmarkanir á fjárfestingum í einstökum tegundum verðbréfa og öðrum fjármálagerningum verði settar með reglugerð, sem og ákvæði um dreifingu eigna. Eftir sem áður yrðu meginreglur um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða, takmarkanir á gjaldmiðlaáhættu, fjárfestingar í hlutabréfum og veðsetningarhlutfall fasteigna ákveðin í lögum. Markmiðið er að gera reglurnar markvissari og að einfaldara verði að laga þær að breytingum í starfsumhverfi lífeyrissjóða og fjármálamarkaðarins almennt.
Þá þarf að hefja undirbúning að því að ítarleg vinna fari í gang við að meta kosti þess að færa fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða að ákvæðum tilskipunar ESB um starfstengda lífeyrissjóði. Þá verði aukin áhersla lögð á reglur sem byggja á "prudent manner principle" í samræmi við þau sjónarmið sem liggja að baki tilskipun ESB um starfstengda lífeyrissjóði. Landssamtök lífeyrissjóða munu fylgja eftir þessum hugmyndum í viðræðum við stjórnvöld."