60.875 manns lögðu til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað á síðasta ári. Er það fjölgun um 28% miðað við árið 2000, þegar um 47 þúsund manns tóku þátt í viðbótarlífeyrisparnaðinum. Alls lögðu launamenn til hliðar á síðasta ári í viðbótarlífeyrissparnað 4.312 m.kr., sem er hvorki meira né minna en um 71% aukning frá árinu 2000, þegar lagt var til hliðar 2.528 m.kr. Embætti Ríkisskattstjóra hefur tekið þessar upplýsingar saman úr skattframtölum einstaklinga.
Þessa aukningu má ekki síst rekja til þess að á síðasta ári hækkaði mótframlag frá launagreiðendum úr 1% í 2%. Launamaður getur því lagt til hliðar 4% af heildarlaunum sínum í viðbótarlífeyrissparnað og lækkað skatta sína sem því nemur og fengið til viðbótar 2% mótframlag frá atvinnurekanda sínum og 0,4% frá ríkinu. Heildarframlagið er því 6,4%. Því er ljóst að mótframlag frá atvinnurekanda og ríki allt að 2,4% af launum hefur reynst mikil hvatning fyrir launamenn að leggja til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað. Á árinu 1999 lögðu 32.524 einstaklingar til hliðar viðbótarlífeyrissparnað að fjárhæð 1.414 m.kr. Aukningin milli áranna 1999 til 2001 hvað varðar fjölda launamanna nemur því 87% og í fjárhæðum rúmlega 200%. Þá er vert að geta þess að samkvæmt kjarasamningi, sem gerður var 13. desember 2001 á milli Alþýðusambands Íslands annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar skal launagreiðandi frá og með 1. júlí s.l. greiða 1% mótframlag af launum fyrir þá starfsmenn sem hafa fram til þessa ekki tekið þátt í séreignarsparnaði. Framlag þetta greiðist til séreignardeildar þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi launamaður á aðild að, nema launamaður ákveði sérstaklega eftir að framlagið verði greitt til annars vörsluaðila lífeyrissparnaðar.