Ríkisfang og réttindi í lífeyrissjóðum.

Reglur um flutning lífeyrissjóðsréttinda milli ríkja Evrópusambandsins (ESB) og Íslands voru nýlega til umfjöllunar í fjölmiðlum. Fram kom að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB séu sérstakar hömlur á flutningi lífeyrissjóðsréttinda frá ESB-ríkjum til Íslands. Þetta er ekki rétt.

EES-samningurinn tryggir að sömu reglur gilda um þessi mál innan EES-svæðisins og innan ESB. Lífeyrismál falla undir EES samninginn og er Ísland þátttakandi í samstarfi um samræmingu lífeyrismála á Evrópska efnahagssvæðinu.

Lífeyriskerfi ríkja ESB og aðildarríkja EES byggja í meginatriðum á þremur stoðum. Undir fyrstu stoð falla almannatryggingakerfi. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eru jafnan fjármagnaðar með sköttum, en rétt til greiðslu úr almannatryggingakerfum hafa ríkisborgarar og íbúar viðkomandi lands að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Undir aðra stoð falla starfstengdir lífeyrissjóðir. Undir þá þriðju fellur svo séreignarsparnaður. Hvað Ísland varðar þá byggja reglur fyrir þessar stoðir á regluverki ESB að því marki sem sambandið hefur sett um þær reglur.

Málstofa framkvæmdastjórnar ESB um lífeyrissjóðsmál "Pension Forum" er sameiginlegur vettangur aðildarríkja sambandsins þar sem leitast hefur verið við að samræma reglur á sviði lífeyrissjóðsmála. Ísland á áheyrnaraðild að málstofunni á grundvelli EES samningsins. Á vettvangi hennar hefur verið rætt um með hvaða hætti unnt sé að greiða fyrir flutningi áunninna lífeyrissjóðsréttinda í starfstengdum lífeyrissjóðum á milli landa en um það gilda nú engar reglur í Evrópurétti. Skiptar skoðanir hafa verið um hvaða leiðir séu færar í þessu efni en bent hefur verið á að málið geti verið æði torleyst þar sem einstakir lífeyrissjóðir eru svo ólíkir innan ESB. Þannig er t.d. óheimilt í sumum tilvikum að flytja réttindi milli einstakra sjóða innan sama lands hvað þá milli sjóða sem staðsettir eru hvor í sínu landi. Þá hafa álitamál komið upp varðandi slíkan flutning, t.d. varðandi kostnað við flutning lífeyrissjóðsréttinda, mat réttinda, skattahindranir ofl. Innan málstofunnar hefur verið unnið metnaðarfullt starf sem ekki sér fyrir endann á enda verkefnið í mörgum tilvikum mjög flókið.

Staða íslenskra þegna að því er lífeyrissjóðsmál varðar myndi ekki breytast við inngöngu Íslands í ESB. Staða íslensks ríkisborgara sem sest að í einhverju aðildarríkja ESB breytist heldur ekki að því er varðar flutning lífeyrissjóðsréttinda milli landa við það að öðlast ríkisfang í viðkomandi ESB ríki. Með aðild sinni að EES samningnum hafa Íslendingar sömu stöðu og þegnar í aðildarríkjum ESB að því er varðar rétt þeirra til flutnings á lífeyrissjóðsréttindum milli landa.


Heimild: Vefrit fjármálaráðuneytisins.