Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu Lífeyrissjóðs sjómanna um 1,4 milljarða króna bætur vegna lagabreytinga sem gerðar voru árið 1981 og sjóðurinn taldi hafa leitt til þess að eignir hans skertust.
Vísaði sjóðurinn til ákvæða stjórnarskrár um eignarétt og taldi að ríkisvaldinu bæri að bæta þessa eignaskerðingu að fullu. Hæstiréttur taldi hins vegar að umrædd lagabreyting hefði ekki leitt til þess, að fjármunir væru teknir frá Lífeyrissjóði sjómanna heldur hefðu greiðslur hans aukist til ákveðinna sjóðfélaga á kostnað heildarinnar. Lagabreytingarnar, sem um var deilt, leiddu til hækkunar lífeyrisgreiðslna til sjóðfélaga sem hófu töku lífeyris fyrir 65 ára aldur og því aukinna lífeyrisskuldbindinga Lífeyrissjóðs sjómanna. Sjóðurinn höfðaði mál á hendur ríkinu og krafðist, með vísan til 72. gr. stjórnarskrárinnar, fjárhæðar sem samsvaraði auknum greiðslum sjóðsins og greiðsluskuldbindingum vegna breytinganna. Hafi lagasetningin leitt til skerðingar á eignum sjóðsins sem aðrir lífeyrissjóðir hafi ekki þurft að sæta. Hæstiréttur féllst á það með lífeyrissjóðnum, að undirbúningur frumvarpsins hefði verið óvandaður. Full ástæða hefði verið til þess að láta tryggingafræðing reikna út hvað ætla mætti að breytingin kostaði lífeyrissjóðinn og þann útreikning hefði síðan átt að leggja fyrir Alþingi og skýra frá því hvort og þá hvaða aðgerðir væru fyrirhugaðar til þess að mæta auknum útgjöldum. Segir Hæstiréttur að hvorki í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 6. desember 1980 né athugasemdum við lagafrumvarpið sé nokkuð að finna um það hvernig fjármagna átti þessa breytingu. Því var ekki fallist á að skýra hafi mátt aðgerðir ríkisstjórnarinnar svo að hún ætlaði ríkissjóði að standa straum af kostnaðinum sem af þessu leiddi. Jafnvel þótt stjórn lífeyrissjóðsins hafi talið að í gerðum ríkisstjórnarinnar hafi verið að finna einhvers konar fyrirheit um að greiða kostnaðinn, hafi ekki falist í þeim bindandi loforð að lögum um greiðslur úr ríkissjóði. Til þess hefði þurft lagaheimild. Taldi Hæstiréttur að umrædd lagabreyting, sem aðilar voru sammála um að hafi verið til komin vegna óska sjómanna, hafi ekki leitt til þess að fjármunir væru teknir frá Lífeyrissjóði sjómanna heldur jukust greiðslur hans til eigin sjóðfélaga, sem hófu töku lífeyris fyrir 65 ára aldur, á kostnað heildarinnar. Því hafi lagabreytingin í raun þýtt tilfærslu réttinda milli félaga í lífeyrissjóðnum. Breytingin hafi verið almenn og náð til allra sem eins voru settir. Þar skipti ekki máli að lögin náðu aðeins til félaga í lífeyrissjóðnum, enda höfðu lífeyrisþegar annarra sjóða ekki viðlíka réttindi að lögum. Í ljósi þessa var ríkið sýknað.