Ríkið ætlar á næsta ári hætta að greiða sérstakt mótframlag vegna lífeyrissparnaðar einstaklinga en samkvæmt fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að ríkið greiði 417 milljónir króna vegna þessa. Verður flutt frumvarp á haustþingi um að fella þetta niður en ríkisstjórnin telur að ekki sé lengur þörf fyrir sérstök lagaákvæði til að stuðla að þessum sparnaði með sértækum hætti.
Þegar lög um viðbótarsparnað voru sett árið 1998 var launagreiðendum heimilað að lækka skil á tryggingagjaldi til ríkissjóðs um allt að 0,2% eða sem svaraði til 10% af 2% iðgjaldi launþega í séreignarlífeyrissjóð, og greiða þennan hluta tryggingagjaldsins sem mótframlag til viðbótar við iðgjald launþegans.
Árið 2000 var heimildin hækkuð í 0,4% eða sem svaraði til 10% af 4% iðgjaldi. Í fjárlögum hefur síðan verið gert ráð fyrir þessu með því að færa mótframlagið til gjalda en á móti er tryggingagjald fært að fullu á tekjuhlið ríkissjóðs án frádráttarins.
Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, að markmiðið með þessari lagasetningu hafi verið annars vegar að stuðla að auknum þjóðhagslegum sparnaði og hins vegar að hvetja launafólk til að styrkja lífeyriseign sína. Í kjarasamningunum árin 2000 og 2001 hafi síðan enn verið haldið áfram á þessari braut en þá var samið um sérstök mótframlög frá launagreiðendum sem almennt eru allt að 2% á móti iðgjöldum launþega í viðbótarlífeyrissparnaði.
Segir í fjárlagafrumvarpinu, að þátttaka launþega í þessari sparnaðarleið hafi farið sívaxandi ár frá ári og sé orðin mjög almenn. Upphaflegu markmiðin með lagasetningunni hafi því gengið eftir og þyki því ekki vera lengur þörf fyrir sétstök lagaákvæði til að stuðla að þessum sparnaði með sértækum hætti.