Reykjavíkurflugvöllur ofarlega í huga á Landspítalafundi

„Það skiptir okkur miklu máli að flugvöllur höfuðborgarsvæðisins verði áfram þar sem hann er vegna nálægðar við Landspítala en á borgarstjórn Reykjavíkur er ekki að treysta í þeim efnum,“ sagði einn fundarmanna efnislega á kynningarfundi nýs Landspítala á Hótel KEA á Akureyri. Fundurinn var boðaður á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða og Landspítala síðastliðinn fimmtudag, 12. nóvember. Heilbrigðisráðherra var gestur fundarins og tók þátt í umræðum.

Framtíðarstaðsetningu spítalans á höfuðborgarsvæðinu bar talsvert á góma og ekki síður var fundarmönnum ofarlega í huga hvort Reykjavíkurflugvöllur og Landspítali yrðu áfram grannar, enda skipti slíkt verulegu máli varðandi sjúkraflug og tilheyrandi öryggi fólks á landsbyggðinni. Jóhannes Gunnarsson, læknisfræðilegur verkefnastjóri á Landspítala, svaraði því til að vangaveltur um framtíð Reykjavíkurflugvallar mættu ekki tefja framgang þess að ráðist yrði í að reisa nýjan Landspítala. Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, sagði að lífeyrissjóðirnir hefðu sem slíkir ekki skoðun flugvallarmálinu og tengdu það ekki ekki áformum um fjármagna nýbyggingu Landspítala.

 

Staðarvalið afgreitt í tveimur nefndum

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra vék í ávarpi sínu að staðarvali nýs Landspítala í tilefni af skrifum Árna Gunnarssonar, fyrrverandi alþingismanns, og Gests Ólafssonar arkitekts í Morgunblaðinu á fimmtudaginn. Tvímenningarnir telja að kostnaður við spítalabyggingu við Hringbraut verði „umtalsvert meiri“ en áætlanir gera ráð fyrir og „mun meiri en ef byggt yrði austar á höfuðborgarsvæðinu.“ Ráðherra sagði að endanlegur botn væri fyrir nokkru fenginn í staðarvalsmálið, að vandlega athuguðu máli.

Undir það tók Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri eignasviðs Landspítala, sem unnið hefur að undirbúningi nýs Landspítala frá árinu 2000. Hann sagði að tvær stjórnskipaðar nefndir hefðu fjallað ítarlega um staðarvalið, fyrst nefnd sem Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, var í forystu fyrir, síðan nefnd með Ingu Jónu Þórðardóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa, í forsæti. Niðurstaða nefndanna tveggja var samhljóða og þess vegna hefur verið ákveðið að nýr Landspítali rísi við Hringbraut.

Rökin eru meðal annars þau að mun ódýrara er að byggja á núverandi lóð og nýta áfram núverandi hús Landspítala en að byggja frá grunni yfir alla spítalastarfsemina. Nálægðin við Háskóla Íslands vegur líka þungt sem og nálægð við Reykjavíkurflugvöll og væntanlega samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni skiptir líka miklu máli. Síðast en ekki síst liggur Landspítalinn við Hringbraut vel við neti almannasamgangna á höfuðborgarsvæðinu og fyrir liggur að stór hluti starfsmanna býr, merkilegt nokk, í nærliggjandi hverfum.

 

Verktaki beri áhættu

Það fór ekki fram hjá fulltrúum lífeyrissjóðanna á Akureyrarfundinum að enginn sem til máls tók lýsti sig andvígan því að lífeyrissjóðir fjárfestu í nýjum Landspítala. Þvert á móti. Margir lýstu sérstakri ánægju sinni með áform lífeyrissjóðanna til málsins en réðu þeim jafnframt að fara með gát og vanda til verka. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa, sagði að hagsmuna lífeyrissjóða yrði að sjálfsögðu vel gætt í samningaviðræðum um verkefnið.

Hann benti á að í viljayfirlýsingu 20 lífeyrissjóða og heilbrigðisráðherra um nýjan Landspítala væri kveðið á um að væntanlegur verktaki bæri að einhverju leyti áhættu af framkvæmdinni og hefði þannig beina hagsmuni af því að halda kostnaði í böndum. Hann nefndi líka að gert væri ráð fyrir að lágmarka áhættu í verkefninu með því að lífeyrissjóðir kæmu að verkefninu með því að kaupa hlutabréf eða skuldabréf af fasteignafélögum sem stofnuð yrðu af þessu tilefni.

Ólafur bætti því við að algengt væri að lífeyrissjóðir í Evrópu fjárfestu í fasteignum. Beinar fjárfestingar af því tagi næmu að jafnaði um 6% af heildareignum allra evrópskra lífeyrissjóða. Hlutfall lífeyrissjóða á Ítalíu, í Finnlandi, Sviss, Noregi og á Írlandi er ofan við evrópska meðaltalið en til dæmis danskir og sænskir lífeyrissjóðir eru neðan við þetta  meðaltal.

Íslenskir lífeyrissjóðir eru því síður en svo að finna um hjólið í fjárfestingum með áformum sínum varðandi nýjan Landspítala. Þeir eru miklu frekar að feta í troðna slóð lífeyrissjóða annars staðar í álfunni og reynslan ytra hefur kennt að fjárfesting í fasteignum er góð búbót í eignasafninu.