Samkvæmt samþykktum lífeyrissjóða stofnast því aðeins réttur til örorkulífeyris að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir frá lífeyrissjóðunum vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.
Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar.
Til mats á því hvort tekjuskerðing hafi orðið vegna örorkunnar skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélagans síðustu almanaksárin fyrir orkutapið og skulu viðmiðunartekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs.
Við hefðbundna tekjuathugun örorkulífeyrisþega hjá Greiðslustofu lífeyrissjóða árið 2005 voru lækkaðir 320 örorkulífeyrisþegar eða rúm 4 % og niðurfelldir af lífeyri voru 150 eða 2% örorkulífeyrisþega. Þessar lækknair og niðurfellingar munu taka gildi um næstu áramót. Ekki verður innheimtur ofgreiddur örorkulífeyrir líkt og Tryggingastofnun ríkisins gerir jafnan.