Réttindaávinnsla í lífeyrissjóðum til 72 ára aldurs?

Í nýrri skýrslu nefndar um sveigjanleg starfslok er lagt til að fólk á vinnumarkaði geti áunnið sér lífeyrisréttindi til 72 ára aldurs í stað 70 ára aldurs, eins og nú er hægt. Jafnframt er lagt til að fólk geti hafið töku lífeyris fyrr en nú er gert ráð fyrir. Breyta þarf lífeyrissjóðalögunum nái þessar tillögur fram að ganga.

 


Nefnd sem ríkisstjórnin skipaði í maí árið 2000 og átti að móta tillögur um að auka sveigjanleika launafólks við starfslok hefur nú skilað tillögum.


Nefndin leggur til að breytingar verði gerðar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þannig að hægt sé að fresta töku lífeyris til allt að 72 ára aldurs án þess að ávinningur réttinda stöðvist.


Nefndin leggur ekki eingöngu til að fólk geti verið lengur á vinnumarkaðnum. Í skýrslunni eru líka tillögur um að fólk geti hafið lífeyristöku fyrr en nú er, þannig að menn geti byrjað að taka ellilífeyri um einhvern tiltekinn tíma og hætt því svo. Eigi tillögurnar að verða að veruleika þarf að breyta núgildandi lífeyrissjóðalögum.


Tillögur þessar eru í samræmi við könnun, sem Hagfræðistofnun lét Gallup gara, þar sem kom fram að 4 af hverjum 10 á aldrinum 55 til 64 ára vildu geta minnkað við sig vinnu við hefðbundinn starfslokaaldur fremur en hætta alveg að vinna.