Rekstrarkostnaður íslenskra og danskra lífeyrissjóða sá lægsti í OECD

Rekstrarkostnaður lífeyrissjóða á Íslandi og í Danmörku er lægri en í nokkrum öðrum aðildarríkjum  Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Nýjustu tölur þar að lútandi eru frá 2007 og rekstrarkostnaður íslenskra og danskra lífeyrissjóða svaraði  þá til 0,2% af heildareignum sjóðanna. Hlutfallið í Finnlandi, Þýskalandi og Austurríki var 0,4% en hæst var það í Tékklandi, 1,4%, eins og meðfylgjandi upplýsingar frá OECD sýna.

 

Landssamtök lífeyrissjóða telja nauðsynlegt að koma þessu á framfæri í ljósi fullyrðinga stjórnarmanns í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, Ragnars Þórs Ingólfssonar, um „glórulausan“ rekstrarkostnað lífeyrissjóða á Íslandi. Hann er fastagestur í Silfri Egils, hefur jafnan uppi stór orð um lífeyrissjóði og starfsemi þeirra og umgengst staðreyndir býsna frjálslega á stundum í málflutningi sínum.

.


Ragnar Þór gagnrýnir nú rekstrarkostnað sjóðanna harðlega og telur auk þess rétt að sameina alla lífeyrissjóði Íslendinga í einn sjóð, sem væntanlega yrði þá á forræði ríkisins. Það er vissulega sjónarmið út af fyrir sig en hefur tæplega mikinn hljómgrunn í röðum sjóðfélaga innan hins almenna lífeyrissjóðakerfis.

 

Staðreyndin er sú, og auðveldlega má sannreyna þá fullyrðingu, að víða um heim er bent á íslenska lífeyrissjóðakerfið sem fyrirmynd. Jafnframt er eftir því tekið að kostnaður við rekstur þess er með því minnsta sem þekkist.

 

  • Tilefni gefst svo hér til að benda á að lífeyrissjóðum hefur fækkað mjög á undanförnum árum. Fyrir um tveimur áratugum voru þeir alls um 90 talsins en nú tekur 31 sjóður við iðgjöldum og fimm þeir stærstu ráða yfir 60% heildareigna lífeyrissjóða landsmanna. Tíu stærstu sjóðirnir ráða yfir um 80% eigna allra lífeyrissjóða.

 Lífeyrissjóðum á Íslandi mun fækka enn frekar. Nýlega hafa til dæmis fjórir lífeyrissjóðir sameinast  Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og meðal minnstu sjóðanna, sem nú eru starfandi, eru nokkrir sjóðir sveitarfélaga sem taka ekki við nýjum sjóðfélögum. Þeir munu því sjálfkrafa leggjast af á næstu árum.