Reglur um meðferð læknisfræðilegra upplýsinga

Á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða er nú unnið að reglum um meðferð læknisfræðilegra upplýsinga hjá lífeyrissjóðum vegna umsókna um örorkulífeyri. Málið er unnið í samstarfi við tölvunefnd og er komið nokkuð á rekspöl.

Reglurnar munu fjalla um meðferð slíkra upplýsinga, hverjir hafa aðgang að þeim, varðveislu þeirra, þagnaskyldu starfsmanna o.fl. Sérstaklega skal gætt að eftirfarandi: 1. Læknisfræðilegar upplýsingar skulu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. 2. Slíkar upplýsingar skulu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. 3. Þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang. 4. Varðveita skal læknisfræðileg gögn a.m.k. jafn lengi og viðkomandi gögn eru talin þáttur í úrskurði lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris. 5. Upplýsingar um læknisfræðileg efni, svo sem læknisvottorð og örorkumöt teljast að sjálfsögðu algjört trúnaðarmál hjá lífeyrisjóðunum. Nánar verður skýrt frá þessum reglum, þegar þær hafa hlotið samþykki tölvunefndar.