Reglur um meðferð heilsufarslegra upplýsinga samþykktar af tölvunefnd

Tölvunefnd samþykkti á fundi sínum 25. september s.l. leiðbeinandi reglur Landssamtaka lífeyrissjóða um meðferð heilsufarslegra upplýsinga hjá lífeyrissjóðunum.

Reglurnar eru svohljóðandi: 1.gr. Sjóðfélaga sem sækir um örorkulífeyri eða nýtur slíks lífeyris er skylt að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris. Eftirfarandi heilsufarslegar upplýsingar þurfa að berast viðkomandi lífeyrissjóði vegna umsóknar um örorkulífeyri: a) Læknisvottorð. b) Örorkumat trúnaðarlæknis sjóðsins. c) Starfsorkumat umsækjanda á þar til gerðu eyðublaði sjóðsins. 2. grein Við meðferð heilsufarslegra upplýsinga fyrir lífeyrissjóðinn skal þess gætt að þær séu: 1. Unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. 2. Fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. 3. Nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. 4. Áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum. Persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta. 5. Varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu. Varðveita skal læknisfræðileg gögn a.m.k. jafn lengi og viðkomanda gögn eru talin þáttur í úrskurði lífeyrissjóðins til greiðslu lífeyris. 3. grein Eftirfarandi aðilar hafa aðgang að gögnum samkvæmt 1. grein: a) framkvæmdastjóri sjóðsins, b) deildarstjóri lífeyrisdeildar og aðrir starfsmenn lífeyrissjóðsins sem vinna að lífeyrismálum, c) trúnaðarlæknir sjóðsins, d) tryggingafræðingur sjóðsins, e) endurskoðandi sjóðsins, f) stjórn sjóðsins. 4. grein Öll heilsufarsleg gögn ber að varðveita í læstum hirslum að loknum vinnudegi. Skal ákveðinn starfsmaður sjóðsins bera ábyrgð á því að gögnin séu varðveitt á sem tryggilegastan hátt. 5. grein Nú eru ákvæði í samþykktum lífeyrissjóðs um að sjóðfélaga sem sækir um örorkulífeyri, sé skylt að láta sjóðnum í té allar upplýsingar um heilsufar sitt, sbr. 1. grein, og er þá viðkomandi lífeyrissjóði heimilt að tölvutaka eftirfarandi upplýsingar, a) orsök orkutaps, sjúkdómsgreining ICD, b) orkutap, upphaf þess og endurmat. Það er skilyrði fyrir slíkri töluskráningu að settir verði nýjir öryggisskilmálar um slíkan gagnagrunn og að sjóðfélagi hafi í umsókn um örorkulífeyri samþykkt að gefa lífeyrissjóðnum allar nauðsynlegar upplýsingar um heilsuhagi sína. 6. grein Um aðgang umsækjanda að gögnum sem hann sjálfan varða fer samkvæmt þeim lögum sem á hverjum tíma gilda um slík réttindi. Ef trúnaðarlæknir lífeyrissjóðs telur að það þjóni ekki hagsmunum umsækjanda að afhenda honum eða umboðsmanni hans afrit af heilsufarslegum gögnum hjá sjóðnum, skal hann synja um aðgang en leiðbeina um kæruheimild til Tölvunefndar. Um skyldu læknis og annarra sem færa sjúkraskrár til þess að afhenda umsækjanda eða umboðsmanni hans afrit skrárinnar í heild eða að hluta fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga. 7. grein Aðilar samkv. 3. gr. eru bundnir þagnarskyldu um þau atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þó þeir láti af starfi hjá viðkomandi lífeyrissjóði. Upplýsingar um heilsufar sem fram koma í læknisvottorðum og örorkumötum eru algjört trúnaðarmál.