Reglur OECD um stjórnskipan fyrirtækja.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa látið þýða reglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stjórnskipan fyrirtækja, sem á ensku nefnist “corporate governance”. Reglurnar verða kynntar á aðalfundi LL n.k. mánudag.

En hvað merkir “corporate governance” eða “stjórnskipan fyrirtækja”? Því er til að svara að stjórnskipan fyrirtækja felst í því kerfi sem notað er til að stýra og fylgjast með rekstri atvinnufyrirtækja og þá sérstaklega með því að skilgreina réttindi og skyldur þeirra aðila sem koma að viðkomandi fyrirtæki, sérstaklega þó stjórn, stjórnendum og hluthöfum. Með góðri stjórnskipan af þessu tagi er hægt að gera hvoru tveggja, byggja upp traust á verðbréfamarkaðinum og auka trúðverðuleika og arðsemi fyrirtækjanna. Reglur OECD um stjórnskipan fyrirtækja fjalla um fimm meginatriði, þ.e. 1) réttindi hluthafa, 2) jafnræði hluthafa, 3) hlutverk hagsmunaðila, 4) upplýsingar og gagnsæi og 5) skyldur stjórnar. Öllum þessum meginþáttum eru gerð skil í þessum reglum, auk þess sem bent er á ýmsa kosti og dæmi sem að gagni kunna að koma við framkvæmd reglnanna. Stjórnskipan fyrirtækja hefur verið mikið til umfjöllunar síðustu árin, sérstaklega í Bandaríkjunum og Bretlandi, en fram til þessa hefur afar takmörkuð umræða verið um þessi mál hér á landi, sem aðallega má rekja til þess að hlutabréfamarkaðurinn er enn tiltölulega ungur að árum og framþróun hans því skammt á veg komin. Fyrir lífeyrissjóðina skiptir megin máli að stjórnskipan fyrirtækja sé með þeim hætti að fullt tillit sé tekið til réttinda hluthafa og þau séu varin m.a. með hliðsjón af kjöri og samsetningu stjórnar, breytingum á lögum og samþykktum viðkomandi fyrirtækis og fullnægjandi upplýsingagjöf. Reglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um stjórnskipan fyrirtækja eru því að þessu leyti eins konar yfirlýsing um grundvallarréttindi hluthafa. Það er von Landssamtaka lífeyrissjóða að kynning á þessum reglum geti orðið góður umræðugrundvöllur í stjórnum lífeyrissjóðanna og stuðlað jafnframt að betri stjórnskipan fyrirtækja.