Reglugerð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða breytt.

Fyrir skömmu var reglugerð nr. 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, breytt með reglugerð nr. 293/2003. Breytingarnar voru gerðar í framhaldi af umræðuskjali Fjármálaeftirlitsins nr. 14/2002, um mat eigna lífeyrissjóða í tryggingafræðilegri athugun, sem sent var út þann 23. desember 2002. Breytingar á reglugerð 391/1998 voru í anda þeirra tillagna er fram komu í umræðuskjalinu og þeirra athugasemda sem bárust eftirlitinu.  

  • Í kafla 3 í umræðuskjalinu voru lögð fram leiðbeinandi tilmæli um framkvæmd endurmats. Þar var tekið á því álitaefni að í 20. gr. reglugerðarinnar var ekki gerður greinarmunur á verðtryggðum bréfum og óverðtryggðum. Lagt var til í áðurnefndu umræðuskjali að óverðtryggð skuldabréf yrðu núvirt með verðbólguálagi ofan á 3,5% raunávöxtunarkröfu. Í skjalinu var lagt til að miðað yrði við 3% verðbólguálag, en Fjármálaeftirlitinu bárust athugasemdir þess efnis að óeðlilegt væri að verðbólguálagið væri hærra en verðbólgumarkmið Seðlabankans, sem er í dag 2,5%.  Einnig var gerð athugasemd við að ekki kæmi fram í umræðuskjalinu við hvaða verðbólguálag ætti að miða þegar um væru að ræða óverðtryggð erlend skuldabréf. Í fyrrnefndum breytingum á reglugerð 391/1998 er kveðið á um að erlend skuldabréf verði núvirt með 3,5% ávöxtunarkröfu, án tillits til verðbólgu.    
  • Í kafla 2.5. í umræðuskjalinu var sett fram það álit Fjármáleftirlitsins að þar sem hlutdeildarskírteini flokkuðust sem verðbréf með breytilegum tekjum skv. 3. mgr. 17. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 55/2000, skyldu hlutdeildarskírteini ekki endurmetin. Flestir umsagnaraðilar mótmæltu þessari túlkun, þ.á.m. Landssamtök lífeyrissjóða, og lögðu til að reglugerð nr. 391/1998 yrði breytt. Í reglugerðinni er komið á móts við þau sjónarmið en skv. henni er heimilt að miða við meðalávöxtun og meðallíftíma við útreikning í stað þess að núvirða hvert einstakt bréf.
  •  Í 22. grein er fjallað um mat eigna á bundnum innlánsreikningum. Breytingin er í samræmi við umfjöllun í kafla 2 í umræðuskuskjalinu. Þó er bætt við ákvæði um lágmarksbinditíma innlána sem er eitt ár, til að koma í veg fyrir að samningar um bundin innlán séu gerðir eingöngu yfir áramót.

 

Reglugerðin öðlaðist gildi í apríl s.l.  en hún tekur til tryggingafræðilegra athugana á fjárhag lífeyrissjóða í lok árs 2003 og síðar.