Raunávöxtun Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja í járnum 2002.

Eignir sjóðins 4,2% umfram áfallnar skuldbindingar í árslok.

Samkvæmt ársreikningi Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja fyrir árið 2002 var hrein nafnávöxtun sjóðsins 1,69% á árinu og hrein raunávöxtun því neikvæð um 0,31%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára var 3,47% og 10 ára meðaltal er 5,19%.

Hrein eign til greiðslu lífeyris var í árslok 11.357 milljónir og hækkaði um 430 milljónir á árinu, eða um 3,9%.  Verðbréf með breytilegum tekjum voru 32,4% af fjárfestingum, eignir í erlendum gjaldmiðlum 14,3% og hlutfall óskráðra verðbréfa 6,4%.

 Iðgjaldatekjur voru 459 milljónir og jukust um 14,6% á milli ára. Rúmlega 2.300 sjóðfélagar greiddu iðgjöld til sjóðsins.

 Lífeyrisgreiðslur voru 283 milljónir, hækkuðu um 17,3%.  Fjöldi lífeyrisþega var 769.

Hlutfall örorkulífeyris er hátt, eða 44,8%.

 Samkvæmt tryggingafræðilegu mati nema eignir sjóðsins umfram áfallnar skuldbindingar 490 milljónum, eða 4,2% en 1.945 milljónir vantar uppá til að mæta heildarskuldbindingum, eða 9,1% á móti 2,5% árið áður.

Lakari staða sjóðsins gagnvart heildarskuldbindingum felst einkum í hærra mati á framtíðarskuldbindingum hans.  Nýjar töflur er sýna hækkandi lífslíkur Íslendinga, veikja stöðuna um 2,5% frá fyrra ári, en þar við bætast áhrif af slakri ávöxtun á árinu, óhagstæðar breytingar á aldursskiptingu sjóðfélaga og talsverð fjölgun örorkulífeyrisþega, umfram það sem vænta mátti.  Réttindakerfi sjóðsins er stigakerfi með stuðlinum 1,5 við 65 ára lífeyrisaldur.

 Raunávöxtun eignasafna séreignadeildar sjóðsins var 6,7% á Safni I og 1,6% á Safni II.

Hrein eign séreignadeildar þrefaldaðist næstum á árinu og var 26,1 milljón í árslok en fjöldi rétthafa er um 940.  Enginn rétthafi séreignadeildar hefur enn sótt um að hefja úttekt á séreignarsparnaði.

 Ársfundur Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja verður haldinn 17. maí 2003, kl. 16:00 í Alþýðuhúsinu í Vestmannaeyjum.


Fréttatilkynning frá Lífeyrissjóða Vestmannaeyja.