Raunávöxtun Lífeyrissjóðs sjómanna 15,3% - besta ár í sögu sjóðsins -

Raunávöxtun Lífeyrissjóðs sjómanna var 15,3% á árinu 2003 eða 18,0% nafnávöxtun. Er það besta ávöxtun í sögu sjóðsins. Ef allar eignir sjóðsins eru metnar á markaðsverði er raunávöxtunin 18,5%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár er 4,9%, þrátt fyrir mjög erfitt ástand á verðbréfamörkuðum 3 af þessum 5 árum, þ.e. árin 2000-2002.

Þessa góðu ávöxtun á nýliðnu ári má rekja til fjárfestingarstefnu sjóðsins og hagstæðra skilyrða á verðbréfamörkuðum bæði innanlands og utan. Innlend hlutabréf sjóðsins hækkuðu um rúm 60% á meðan Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 56%. Einnig var góð ávöxtun á erlendum hlutabréfum sjóðsins eða 32% í dollurum, en heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 30%.

Sjóðurinn jók vægi innlendra og erlendra hlutabréfa í verðbréfasafni sínu á sl. ári. Þá varði sjóðurinn gjaldeyriseign sína erlendis og varð því fyrir óverulegu gengistapi vegna styrkingar krónunnar.

Fjárfestingatekjur námu samtals 8.717 milljónum króna og hækkuðu um 7.515 milljónir króna á milli ára. Hrein eign til greiðslu lífeyris var 56.247 millj. kr. í árslok 2003 og hækkaði hún um 9.184 milljónir frá fyrra ári eða 19,5%.

 Eignaskiptingin var með eftirfarandi hætti í árslok 2003: 66% af eignum sjóðsins voru í innlendum skuldabréfum, 17% í innlendum hlutabréfum og 17% í erlendum verðbréfum.

Á árinu greiddu 627 launagreiðendur iðgjöld til sjóðsins, samtals að fjárhæð 1.857 milljónir króna, fyrir 5.195 sjóðfélaga. Sjóðfélagar í árslok 2003 voru 38.522. Lífeyrisgreiðslur námu 1.286 milljónum króna og heildarfjöldi þeirra sem fékk greiddan lífeyri á árinu var 3.546.

 


Fréttatilkynning frá Lífeyrissjóði sjómanna. Frekari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri sjóðsins, Árni Guðmundsson, í síma 520 5100.