Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur nú til rannsóknar meintan fjárdrátt fyrrverandi endurskoðanda Tryggingarsjóðs lækna. Málið barst lögreglu að frumkvæði endurskoðandans sjálfs.
Í byrjun mánaðarins fór lögmaður endurskoðandans á fund efnahagsbrotadeildarinnar og lagði fram játningu fyrir hönd umbjóðanda síns. Í játningunni viðurkennir maðurinn að hafa dregið sér fé úr sjóðnum í yfir áratug. Um er að ræða 27 milljónir króna sem maðurinn hefur skilað aftur. Maðurinn, sem er löggiltur endurskoðandi, hefur verið rekstraraðili sjóðsins frá stofnun hans, í rúma þrjá áratugi. Í játningu mannsins kom fram að fjárdrátturinn hafi byrjað árið 1984 og að hann hafi dregið sér fé úr sjóðnum í rúman áratug. Endurskoðandinn hafi hætt því fyrir nokkrum árum, ekki treyst sér til að halda þessari svikamyllu áfram og því ákveðið að leggja inn játningu. Margir koma að rannsókn málsins, þar á meðal Fjármálaeftirlitið þar sem um eftirlitsskyldan sjóð er að ræða. Nýr endurskoðandi hefur verið ráðinn, að tillögu Fjármálaeftirlitsins, til að fara yfir fjármál sjóðsins og búast má við að þeirri endurskoðun verði lokið eftir um fjórar vikur. Ekki hefur verið greitt í sjóðinn í fjögur ár þar sem til stendur að leggja hann niður vegna smæðar. Sjóðfélagar voru árið 1999 46 talsins, en síðustu ár hafi þeim fækkað talsvert. Eignir Tryggingarsjóðs lækna námu aðeins um 84 milljónir króna í árslok 2000 og þarf af í séreign um 67 milljónir króna.