Ráðherrann brýndi lífeyrissjóði til frumkvæðis

„Lífeyrissjóðir hafa heitið því að koma myndarlega að uppbyggingu efnahagslífsins og ég hefði hiklaust viljað sjá meira framkvæði af þeirra hálfu. Sá söngur er óskaplega vinsæll að beðið sé eftir ríkisstjórninni, að hún sé ekkert að gera eða sé jafnvel sofnuð! Eftir hverju er verið að bíða?“ spurði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra meðal annars á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða í gær og svaraði því reyndar ekki sjálfur hvað hann væri nákvæmlega með í huga þegar hann brýndi lífeyrissjóði til frumkvæðis í framkvæmdum.  

Ráðherrann  var annar tveggja gesta samtakanna á aðalfundinum. Hinn gesturinn var Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Salvör fjallaði um bankahrunið og lærdóma lífeyrissjóða og verður síðar gerð grein fyrir erindi hennar hér á heimasíðunni. 

 

 

Óhætt er að segja að fulltrúar lífeyrissjóða hafi lagt við hlustir þegar fjármálaráðherrann fór að hvetja þá til frumkvæðis í framkvæmdum. Ekki síður vöktu athygli þau ummæli ráðherrans að lífeyrissjóðirnir skilgreindu aðrsemiskröfur sínar ef til vill of þröngt, þeir ættu að líta líka til „samfélagslegra gilda“ í verkefnum sem þeir tækju sér fyrir hendur:

 

Fleira skiptir máli en vextir á lánum“

 

„Við þekkjum öll þessar stífu arðsemiskröfur sem fjárfestingar lífeyrissjóða eru bundnar við og ég leyfi mér að spyrja hvort þær séu ef til vill of þröngt skilgreindar? Á samfélagslegur ávinningur að fá aukið vægi til hliðar við arðsemina? Á að horfa meira til heildarhagsmuna og framtíðarverkefna en til hins kalda arðsemismats í fjárfestingu augnabliksins? Má ekki spyrja sig í hvernig samfélagi við viljum búa og horfa til þess, ekki síður en til vaxtanna sem bjóðast í ár eða á því næsta?“

 

Steingrímur J. fékk fyrirspurnir á fundinum í tilefni ummæla sinna og kvaðst fyrst og fremst varpa fram almennum hugmyndum til umræðu:  „Meiri langtímasjónarmið, já. Ég kalla eftir því að lífeyrissjóðir séu tilbúnir að binda fjármuni í einhverju verkefni þótt arðsemin sé ekki mikil næstu fimm til tíu árin en að það skili okkur betra samfélagi og öflugra efnahagslífi. Dæmi um slíkt er nýr Landspítali. Það skiptir fleiri máli en vextir á lánum.“

 

Horft til norska olíusjóðsins

 

Fjármálaráðherrann sagði að lífeyrisssjóðir landsins væru „eitt  helsta akkerið í íslensku efnahagslífi og sterkir í alþjóðlegum samanburði“. Sjóðirnir skákuðu meira að segja sjálfu ríkinu nú um stundir, þegar horft væri til stærðar og þýðingar til fjárfestingar. Hann fjallaði einnig um siðferði í fjárfestingum og kallaði eftir því að lífeyrissjóðirnir tækju norska olíusjóðinn, eftirlaunasjóð norska ríkisins, til fyrirmyndar í þeim efnum.

 

„Lífeyrissjóðirnir hafa verið harkalega gagnrýndir fyrir að eiga sinn þátt í að hleypa upp efnahagsbólunni með fjárfestingum sínum og hvernig þeir fjárfestu. Ýmislegt í þeirri gagnrýni verða sjóðirnir að taka til sín og spyrja sig til að mynda hvort samkrullið í fjárfestingum við yfirmenn og fyrirtæki, sem í hlut áttu hinum megin, hafi verið í lagi. Það er líka nefnt að laun í lífeyrissjóðum hafi farið úr böndum eins og víðar á góðærisárunum.

 

Lífeyrissjóðirnir verða að ræða málefni sín opinskátt í ljósi samfélagsleg hlutverks síns. Þeir þurfa að starfa í sátt við eigendur sína, þjóðina, og menn verða að geta treyst því í orði og á borði að þetta séu okkar sjóðir. Hluti af samfélagslegri ábyrgð væri að setja skilyrði fyrir fjárfestingum. Ættu lífeyrissjóðir til dæmis ekki að neita því að fjárfesta í fyrirtækjum sem borga bónusa, einhverja fáránlega bónusa sem eru græðgisleifar frá 2006 og 2007?  Ég hef lengi verið áhugamaður um siðferðiviðmið á borð við þau sem norski olíusjóðurinn setur. Hann gerir kröfur til fyrirtækja sem hann kaupir hluti í og lætur sig hverfa, greiðir atkvæði með fótunum, ef þau brjóta gegn siðareglum sjóðsins. Það getur til dæmis gerst ef viðkomandi fyrirtæki er staðið að því að stunda barnaþrælkun eða vopnabrask.“

 

Hefði viljað sjá lífeyrissjóði kaupa Hitaveitu Suðurnesja!

 

Fjármálaráðherrann svaraði fyrirspurnum úr sal að loknu erindi sínu og var meðal annars inntur eftir því hvort hann sæi eitthvað því til fyrirstöðu að lífeyrissjóðir eignuðust hluti í íslenskum orkufyrirtækjum. Hann svaraði því til að helst hefði hann viljað sjá lífeyrissjóðina kaupa Hitaveitu Suðurnesja!  Slíkt hefði verið langtímahugsun af hálfu sjóðanna, þrátt fyrir að arður blasi ekki við í verkefninu alveg á næstunni heldur horft til framtíðarmöguleika og arðsem til lengri tíma í ljósi hækkandi orkuverðs og þeirrar staðreyndar að jarðvarminn er umhverfisvæn orkulind.