Ráðdeildarsöm ungmenni í Noregi

Ungt fólk í Noregi er ráðdeildarsamara og viljugra til að leggja fyrir en menn höfðu gert sér grein fyrir. Viðhorfskönnun á vegum Fokus Bank leiðir í ljós að ríflega helmingur Norðmanna á aldrinum 18-30 ára ætlar að spara meira á næsta ári en í ár, sem er mun hærra hlutfall en í öllum öðrum aldursflokkum.

 

Einungis þrír af hverjum hundrað Norðmanna innan við þrítugt ætla ekki að spara á árinu 2012. Það kemur auðvitað ekki á óvart að í þessum aldursflokki er líka að finna hlutfallslega flesta Norðmenn sem segjast hugsa meira um að nota sparifé í húsnæði, frí og varaforða til að grípa til, ef þörf krefur, frekar en að byrja að leggja strax fyrir til efri áranna. Fimm af hundraði í þessum aldursflokki segjast engu að síður vera byrjuð að spá í efri árin og jafnvel vinna í þeim málum.

Viðskiptablaðið Dagens Næringsliv hefur eftir Mariu Setsaas, hagfræðingi í Fokus Bank, að ráðdeildarsömustu ungmennin leggi hart að sér og reyni jafnvel að eignast íbúðir á stúdentsárunum með aðstoð foreldra eða annarra náinna ættingja, taka íbúðirnar í gegn og leigja síðan út að hluta eða öllu leyti. Þessi ungmenni neita sér gjarnan um ferðalög og frí á námsárunum, vinna með námi og hafa sum sé allar klær úti til að koma undir sig efnahagslegum fótum sem fyrst á ævinni.

Byggt á DN.no