PPM-sjóðum í Svíþjóð verði fækkað úr 705 í 100 til 200 á næstu misserum.

PPM í Svíþjóð er sú stofnun sem er tengiliður milli launamanna og hinna fjölmörgu sjóða, sem bjóðast til þess að annast varðveislu og ávöxtun á sænska lífeyrissparnaðinum. Starfsemi PPM hefur nú á annað ár verið í sérstakri skoðun hjá sænsku ríkisstjórninni. Nefnd á vegum stjórnvalda hefur lagt til að fækka þeim fjármálafyrirtækjum sem annast fjárfestingar fyrir PPM og að gera þurfi kröfur um lægri umsýsluþóknanir. Sjá einnig frétt hér á síðunni frá 30. september s.l. um PPM.

Nefndin, sem skipuð var af sænsku ríkisstjórninni í september á síðasta ári, hafði það verkefni að skoða uppbyggingu og fjárfestingarárangur hjá PPM. Í niðurstöðum nefndarinnar er bent á að þrátt fyrir að PPM gangi vel sem stofnun sem annist umsjón með sænska lífeyrissparnðinum og sem sé tiltölulega ódýr í rekstri, þá sé hægt að einfalda starfsemina og ná fram enn frekari sparnaði fyrir launafólk.

Lagt er til að fjöldi sjóða sem eru á boðstólum hjá PPM verði fækkað verulega og verði alls á milli 100 og 200. Til samanburðar má geta þess að fjöldi sjóða var  450 á árinu 2000 og hafði þeim fjölgað alls í 705 sjóði eða fjárfestingarkosti á þessu ári. Þá komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir að þóknunargjöld  sem launþegar greiddu vegna lífeyrissparnaðarins væru í sjálfu sér lág á alþjóðlegum mælikvarða, mætti lækka þau enn frekar.
 PPM gæti sem stór fjárfestir krafist frekari afsláttar á umsýslugjöldum fjármálafyrirtækjanna. Nauðsynlegt væri að PPM sýndi styrkleika sinn gagnvart fjármálafyrirtækjunum við lækkun umsýslugjaldanna.  

 

Nefndin gat þess jafnframt að ávöxtun launþega í PPM væri ekki uppá marga fiska. Bent var á að ávöxtun frá árinu 2000 til 2005 hefði verið neikvæð um 9%. Það merkti einfaldlega að 1 sænsk króna sem sett var í ávöxtun árið 2000 vær nú aðeins 91 eyrir. Ávöxtunin hefði hins vegar verið jákvæð síðustu misserin.

Þá komst nefndin að .þeirri niðurstöðu að AP7, sem er forvalssjóður, þ.e. sjóður fyrir þá launþega sem ekki velja sjálfir fjárfestingarkosti, ætti að breytasr í e-k “kynslóðasjóð”, þar sem áhættan af fjárfestingum skyldi minnka með hækkandi aldri sjóðfélagans.