Olíumengunarslysið mikla á Mexíkóflóa hefur orðið tilefni umræðna meðal fjárfesta í röðum lífeyrissjóða um fjárhagslega áhættu tengda starfsemi af þessu tagi. Það er ekki aðeins gengislækkun hlutabréfa í BP-olíufélaginu sem veldur mönnum áhyggjum heldur ekki síður ímyndarskaðinn sem olíuhneykslið skapar.
BP er umsvifamikill fjárhagslegur bakhjarl (sponsor) og fáir gátu hugsað sér öflugra fyrirtæki að því leyti. Nú standa hins vegar öll spjót á BP sem skaðar fjárfestingar lífeyrissjóða sem hagsmuna eiga að gæta, beint eða óbeint. Umræða um skaða og áhættu tengda BP-málinu er orðin áberandi í Bretlandi. Til dæmis er haft eftir Duncan Exley, framkvæmdastjóra FairPensions, að staða lífeyrissjóða þar í landi, gagnvart mengunarslysinu, hljóti að kalla á að fjárfestar geri ráðstafanir til að verjast slíkri áhættu í framtíðinni. Hann bætir við að þetta eigi reyndar við um fleira en olíuleka og bendir á fleira sem varðar umhverfismál og óábyrga fjármálastarfsemi sem skaða kunni efnahag og fjárfestingar þegar til lengri tíma sé litið.
Stuðst við IPE-fréttaþjónustuna