Öll iðgjöld til lífeyrissjóða verði frádráttarbær.

Landssamtök lífeyrissjóða telja eðlilegt að öll iðgjöld til lífeyrissjóða eða í viðbótarlífeyrissparnað séu frádráttarbær til skatts, hvort sem um er að ræða framlag launþegans eða vinnuveitandans.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa sent inn umsögn til efanhags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Landssamtökin telja eðlilegt að öll iðgjöld til lífeyrissjóða eða í viðbótarlífeyrissparnað séu frádráttarbær til skatts, hvort sem um er að ræða framlag launþegans eða vinnuveitandans, enda séu um að ræða frestun á skattgreiðslum, þar til að lífeyristöku kemur, en ekki skattfrelsi, eins og lesa má í athugasemdum frumvarpsins. Óþarfi sé að hafa einhverja takmarkanir á þessum framlögum vegna skattfrestunar, eins og lagt er til í frumvarpinu, bæði með 20% hlutfallinu og ekki síður með fjárhæðartakmörkunum, sem miðast við 625 þús. kr. mánaðarlaun að meðaltali. Ljóst er að t.a.m. sjómenn, geta orðið fyrir tvísköttun, þegar kemur að greiðslu lífeyris, ef frumvarpið nær fram að ganga óbreytt. Með því að takmarka lífeyrissparnaðinn með þessum hætti er bæði verið að vekja aftur upp tvísköttunaráhrif, en ekki síður er verið að ýta undir þá öfugþróun að hægt verði að takmarka lífeyrissparnaðinn enn frekar, þegar næst horfir til halla á fjárlögum hins opinbera. Þá verði ekki annað séð en verulegs misræmis gæti í þessum efnum hjá sjóðfélögum opinberra starfsmanna, með hliðsjón af því hvort þeir greiða í A-deild eða B-deild sjóðsins. Þá liggi ennfremur engan veginn fyrir hvort eða hvernig meðhöndla skuli aukaframlög ríkisins í lífeyrissjóði alþingismanna og ráðherra í skattalegu tilliti. Með hliðsjón af ofanrituðu leggja Landssamtök lífeyrissjóða eindregið til að heimilt verði að draga frá skattskyldum tekjum framlög í lífeyrissjóði og í viðbótarlífeyrissparnað, án nokkurra takmarkana á fjárhæðum eða sem hlutfall af launum, enda séu einungis um að ræða skattfrestun, þar sem lífeyrisgreiðslur koma til skattlagningar við útborgun. Þá er ennfremur varað við öllum tillögum í þá veru að telja lífeyrisframlög vinnuveitenda sem launatekjur hjá launþegum. Slíkt sé andstætt þeirri framkvæmd sem tíðkast hefur í áratugi og gefist hefur vel á almennum vinnumarkaði enda í samræmi við ákvæði kjarasaminga. Tæknileg vandamál varðandi skattalega meðferð lífeyrisiðgjalda mega því ekki verða til þess að skapa misræmi, óvissu, tvísköttunaráhrif og önnur hliðstæð vandamál hjá almennu launafólki.