Öldrun þjóða heims og ógn sem af henni stafar

Þjóðir heimsins eldast og öldrunin skapar þrýsting á ríkisstjórnir og fyrirtæki vegna sívaxandi fjárþarfar lífeyris- og heilbrigðiskerfa til lengri tíma. Þá fækkar vinnandi fólki hlutfallslega en eftirlaunaþegum fjölgar að sama skapi. Það að fólk lifir lengur en áður skapar þannig ákveðna ógn fyrir lífeyriskerfin og fyrirtækin sem undir þeim standa.

Efnahagsstofnunin í París, OECD, reiknar út hlutfall vinnandi fólks og eftirlaunamanna (65 ára og eldri) nú og í framtíðinni til að sýna fram á lýðfræðilega þróun samfélaga heimsins næstu áratugi. Þar koma margir þætti við sögu, einkum þó dánarlíkur, fæðingarlíkur og búferlaflutningar.

Í OECD-ríkjum eru að jafnaði 25 eftirlaunaþegar fyrir hverja 100 virka starfsmenn á vinnumarkaði, með öðrum orðum standa fjórir vinnandi menn undir hverjum einum á eftirlaunum. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall breytist stórlega þegar líður á öldina. Þannig verða að jafnaði tveir á vinnumarkaði að baki hverra tveggja eftirlaunamanna árið 2050.

        Öldrun verður hröðust í Kóreu. Kóreumenn eru núna þriðja yngsta þjóðin í OECD en verða sú næstelsta þjóðin árið 2050, á eftir Japönum.

 

        Japanir verða sem sagt elsta þjóðin um miðja öldina. Þar verða hlutfallslega fæstir vinnandi menn á bak við fólk á eftirlaunum.


Þessu verður á annan veg farið í Kína og Bandaríkjunum þar sem einna flestir vinnandi menn verða hlutfallslega á bak við eftirlaunafólkið.

Mexókóbúar og Tyrkir eru núna tiltölulega ungar þjóðir í lýðfræðilegum skilningi, í samanburði aðrar þjóðir innan vébanda OECD. Sama á við um Kóreumenn, sem fyrr segir.

Hins vegar eldast Kóreumenn hlutfallslega mun hraðar til ársins 2050 en Mexíkóbúar og Tyrkir.
Þjóðir sem teljast hlutfallslega gamlar nú, lýðfræðilega séð, eldast hægar en margar aðrar á næstu 40 árum. Þetta á við um Belga, Frakka, Hollendinga, Norðmenn, Svía og Breta.

Öldrunin er hvað hröðust í Vestur-Evrópuríkjum og fæstir vinnandi menn verða að baki eftirlaunamönnum á Ítalíu, Spáni, í Grikklandi og Þýskalandi.

 

Heimildir: OECD, Eurostat og The Economist