Ólafur Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, sem stofnaður var í lok september við sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs. Ólafur hefur verið framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs frá stofnun 2006 og var áður framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Lífiðnar og verðbréfafyrirtækisins Virðingar.
Ólafur er 46 ára, alinn upp á Ísafirði þar sem hann lauk stúdentsprófi 1990. Árið 1996 brautskráðist hann með meistaragráðu í erfðafræði frá Salzburgarháskóla og prófi í viðskipta- og rekstrarfræði frá Háskóla Íslands 2000. Þá hefur hann lokið prófi sem löggiltur verðbréfamiðlari. Ólafur hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2000 og setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum fyrir umbjóðendur sína.
Þorbjörn Guðmundsson, stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs, segir um framkvæmdastjóraráðninguna:
„Stjórn sjóðsins ákvað að ganga til samninga við Ólaf Sigurðsson og við erum ánægð með að fá hann til starfa. Ólafur á að baki langan og farsælan feril í lífeyrissjóðakerfinu, þekkir afar vel til fjármálaumhverfis lífeyrissjóða og er einn helsti sérfræðingur og ráðgjafi Landssamtaka lífeyrissjóða þar að lútandi.“
Nýr framkvæmdastjóri mun nú ráða starfsfólk nýja lífeyrissjóðsins og finna sjóðnum húsnæði til að starfa í þegar fjármálaráðuneytið staðfestir sameininguna.
Gert er ráð fyrir að samlegðaráhrif skili sér á ýmsan hátt í rekstri sameinaðs lífeyrissjóðs þegar til lengri tíma er litið. Engum starfsmanni lífeyrissjóðanna tveggja verður sagt upp vegna sameiningarinnar.
Á meðfylgjandi ljósmynd frá vinstri: Þorbjörn Guðmundsson stjórnarformaður, Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri og Anna Guðný Aradóttir varaformaður stjórnar Birtu lífeyrissjóðs.