Öflugt lífeyriskerfi sem er fyrirmynd annarra þjóða.

Jónas Friðrik Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða í gær, að Íslendingar hefðu sýnt fyrirhyggju með því að byggja upp öflugt lífeyriskerfi sem aðrar þjóðir líta til sem fyrirmyndar. Lífeyrissjóðirnir væru öflugir þátttakendur á litlum innlendum fjármagnsmarkaði og gætu haft töluverð áhrif á markaðinn, bæði á verð og hegðun markaðarins.

Sterk staða lífeyrissjóðanna
Jónas greindi frá því að í þeirri umræðu sem átti sér stað á síðasta ári um íslenskt fjármálakerfi hefði verið gagnlegt að geta bent á sterka stöðu íslensku lífeyrissjóðanna sem mikinn styrk fyrir efnhagsumhverfið hér á landi. Þá sagði Jónas það skoðun sína að þeir fjármunir sem safnast hafa í lífeyrissjóðunum væru ekki aðeins ein af undirstöðum félagslegs öryggis heldur voru mikilvægt akkeri í hinni hröðu uppbyggingu íslensks efnahagslífs og fjármálamarkaðar á síðasta áratug.

Gagnkvæmir hagsmunir
Lífeyrissjóðirnir hafa tekið þátt í að byggja upp sterk alþjóðleg fyrirtæki og stutt fjárfestingar í arðbærum verkefnum. Hagsmunir sjóðanna og fjármálamarkaðarins eru gagnkvæmir því íslensk fjármálafyrirtæki og verðbréfamarkaður gegna lykilhlutverki við að finna hagkvæman farveg fyrir fjármagn í vörslum sjóðanna.

Lífeyrissjóðirnir ættu að vera samviska íslensks fjármálamarkaðar
Lífeyrissjóðirnir sem væru sterkir fagfjárfestar á íslenskum hlutabréfamarkaði gegndu forystuhlutverki varðandi kröfur um góða stjórnarhætti í þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfesta. Hann sagði sjóðirnir ættu þannig að vera eins konar samviska íslensks fjármálamarkaðar, það væri rökrétt með tilliti til þeirra almannahagsmuna sem þeim væri ætlað að tryggja, þeirra viðhorf ættu að ráðast af langtímahagsmunum frekar en skammtímagróða.

Nálgast má ræðu Jónasar hér.