Óbreytt lífeyrisréttindi hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.

"Vegna sterkrar stöðu lífeyrissjóðsins fyrir kreppuna og virkrar dreifingar eigna munu lífeyrisgreiðslur og réttindi haldast óbreyttar frá síðustu áramótum. Þetta eru góðar fréttir, ekki síst í ljósi þess að frá 1997 hafa lífeyrisréttindi sjóðfélaga verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar. Tryggingafræðileg staða sjóðsins um sl. áramót var neikvæð um 7,2% sem er innan þeirra marka sem lög mæla fyrir um. Þróun lífeyrisgreiðslna mun ráðast af ástandi á fjármálamörkuðum og áhrifum þess á eignir sjóðsins“ sagði Þorgeir Eyjólfsson forstjóri. Alls fengu 8.662 lífeyrisþegar greiddan lífeyri frá sjóðnum á síðasta ári að fjárhæð 5 milljarðar króna.

Frá þessu er skýrt á heimasíðu lífeyrissjóðsins og í auglýsingu í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir að árið 2008 hafi verið ár áfalla á fjármálamörkuðum innanlands og erlendis. Þrátt fyrir fall viðskiptabankanna og verðfall á eignum hafi þó náðst að verja meginhluta af eignasafni sjóðsins. Þannig námu eignir 249 milljörðum í árslok 2008 samanborið við 269 milljarða árið áður. Ávöxtun á árinu 2008 var neikvæð um 11,8%. Hins vegar væri hrein raunávöxtun til lengri tíma jákvæð hvort sem litið er til fimm eða tíu ára tímabils.

„Á síðasta ári var lögð áhersla á að draga úr vægi innlendra hlutabréfa og auka að sama skapi vægi innlendra skuldabréfa, einkum ríkistryggðra bréfa. Þá var horft til þess að selja fyrirtækjaskuldabréf eftir því sem kostur var. Þannig námu kaup á innlendum skuldabréfum umfram sölu 13,6 milljörðum kr. á sama tíma og sala innlendra hlutabréfa umfram kaup nam 6,0 milljörðum kr. Einnig var dregið verulega úr vægi erlendra verðbréfa vegna þróunar á mörkuðum erlendis og nam sala umfram kaup 13,6 milljörðum“ að sögn Þorgeirs.

Fall viðskiptabankanna í október 2008 og óvissa í íslensku efnahagsumhverfi í kjölfarið hefur haft í för með sér niðurfærslu á skuldabréfaeigninni og afskriftir á stórum hluta innlendrar hlutabréfaeignar sjóðsins. Eftir sem áður er meginhluti eigna lífeyrissjóðsins í traustum verðbréfum sem munu halda verðgildi sínu og bera góða ávöxtun til framtíðar.