Í dag var undirritað nýtt samkomulag 13 aðila um rekstur Raðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Samkomulagið gildir til 31. desember 2004. Aðilar að samkomulaginu eru Félagsmálaráðuneytið, Íbúðalánasjóður, Reykjavíkurborg, Búnaðarbanki Íslands hf., Íslandsbanki hf., Landsbanki Íslands hf., Samband íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra sveitarfélaga, Neytendasamtökin, þjóðkirkjan, Landssamtök lífeyrissjóða, ASÍ og BSRB.
Ráðgjafarstofan var sett á laggirnar í febrúar 1996 sem tilraunverkefni á vegum 17 aðila. Frá því að Ráðgjafarstofan hóf starfsemi sína og til dagsins í dag hafa rúmlega 3600 fjölskyldur fengið fjárhagsráðgjöf ásamt tillögum að lausn til viðkomandi aðila. Auk þess hefur þúsundum verið liðsinnt með ráðleggingum með símaviðtölum. Ráðgjafarstofan hefur unnið mikilvægt starf í þágu fjölskyldna sem af ýmsum ástæðum hafa átt erfitt með að standa við skuldbindingar sínar og sjá sér farborða. Reynslan af starfi Ráðgjafarstofunnar hefur komið að góðu gagni varðandi tillögur um úrræði og forvarnastarf og hefur stofan unnið brautryðjendastarf á mörgum sviðum. Framundan er að auka fræðslu og fyrirbyggjandi starf Ráðgjafarstofunnar ásamt því að efla þjónustu við landsbyggðina. Ráðgjafarstofan stefnir að því að efla starfsemi sína með auknu samstarfi við aðila sem sinna þörfum þeirra sem þurfa aðstoð og áfram verður leitað eftir aðilum sem vilja leggja starfseminni lið. Í fyrra fengu 667 fjölskyldur ráðgjöf ásamt tillögugerð um aðgerðir til að leysa aðsteðjandi vanda. Auk þess er fjölmörgum liðsinnt með símaviðtölum. Aldrei fyrr hefur tekist að liðsinna jafn mörgum á einu ári en þrátt fyrir það er langur vegur frá því að hægt hafi verið að gefa öllum ráð sem leituðu til Ráðgjafarstofunnar. Einkennandi fyrir þróun síðustu ára er aukning yngri umsækjenda. Meðalumsækjandinn á árinu 2001 er rúmlega 38 ára með 177 þús. kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði, skuldar rúmlega 7,8 millj. kr., þar af eru um 1,6 millj. kr. í vanskilum. Ráðstöfunartekjur umsækjenda hækkuðu um 11% milli ára. Heildarskuldir umsækjenda, þ.e. eftirstöðvar auk vanskilaskulda, jukust um tæplega 750 þús. kr., en þar sem eignir hafa einnig hækkað verður liðurinn skuldir umfram eignir nánast sama upphæð og árið á undan. Athygli vekur að hjón 51–60 ára annars vegar og 61–70 ára hins vegar eru með verulegan hluta heildarskulda eða 44% og 65% í vanskilum. Hlutfallslega eru konur með minnst vanskil, eða frá 12–25%. Einhleypir karlar eru hins vegar með hlutfallslega meiri vanskil, eða á bilinu 21–35%. Á árinu 2001 eru veðskuldir og önnur bankalán umsækjenda samtals 79,8% af heildarskuldum, þ.e. eftirstöðvum að viðbættum vanskilum. Þar af eru veðskuldir yfir 52% og önnur bankalán 27,4%. Bílalán, kreditkort, námslán, meðlagsskuldir, skattaskuldir og aðrar skuldir eru 20,2% af heildarskuldum umsækjenda. Þegar bornar eru saman tölur frá fyrra ári eru litlar breytingar á skuldasamsetningu. Í heildina hafa önnur bankalán, þar með talin yfirdráttarlán, aukist um 1,8% af heildarskuldum en ekki hefur orðið aukning á veðlánum.