Nýtt lífeyriskerfi í Svíþjóð.

Svíar búa við allt öðruvísi lífeyriskerfi en við Íslendingar. Öll þekkjum við hugtök eins og grunnlífeyrir og tekjutrygging frá Tryggingastofnun ríkisins. Svíar búa að sjálfsögðu við grunnlífeyri frá almannatryggingum (folkpension) en tekjutryggingarkerfið er allt öðruvísi. Það byggist á launatekjum yfir starfsævina, sem umreiknaðar eru yfir í réttindastig, svo kallað ATP-kerfi (allmän tilläggspension).

Segja má að almenna lífeyrissjóðakerfið á Íslandi sé því eins konar ATP-kerfi eða hafi átt að koma í þess stað hér á landi, ef ekki hafi komið til mjög óréttlát skerðingarákvæði stjórnvalda, sem við köllum tekjutryggingarákvæði og frítekjumörk. Það var árið 1959 sem ATP-kerfið náði fram að ganga í Svíþjóð með minnstum mögulegum mun á þingi eða aðeins eins atkvæðamun. Ágreiningurinn var hvort ATP-kerfið ætti að vera með skylduaðild allra launamanna eða ekki. Verkalýðshreyfingin og sósíaldemokratar voru fylgjandi þessum breytingum en borgaralegu flokkarnir vildu hins vegar frjálsan viðbótarsparnað til að ná þeim markmðum að hækka lífeyririnn. Á árunum 1959 til 1990 þurfti að breyta ATP-kerfinu hvorki meira né minna en 19 sinnum á sænska þinginu og það var ekki fyrr en 1991 að sett var á stofn nefnd sem hafði það hlutverk að leggja fram tillögur um breytingar á sænska lífeyriskerfinu. Drög að endurbættu lífeyriskerfi var svo kynnt 1992, en það var þó ekki fyrr en 8. júní 1998 að sænska þingið samþykkti nýtt lífeyriskerfi. Fyrstu lífeyrisgreiðslur út úr nýja kerfinu verða á árinu 2001. Þeir sem fæddir eru 1938 og síðar verða inn í nýja lífeyriskerfinu, þó þannig að þeir sem fæddir eru 1938 til 1953 munu taka lífeyrir að hluta til úr nýja kerfinu og að hluta úr eldra ATP-kerfinu. Til þess að fá fullan lífeyri þarf viðkomandi að hafa haft launatekjur í 30 ár og er þá lífeyririnn reiknaður út frá 15 bestu launaárunum. ATP-kerfið er gegnumstreymiskerfi (pay-as-you-go system) þar sem iðgjöld sem greiðast af samtímatekjum vinnandi manna eru umsvifalaust notuð til greiðslu lífeyris, sbr. bætur frá Tryggingastofnun ríkisins hér á landi. Iðgjaldið skiptist til helminga milli launagreiðenda og launþega og er alls 18,5%. Allir sem hafa launatekjur og eru á aldrinum 16 til 64 ára eru iðgjaldaskyldir. Heildariðgjald er eins og áður segir 18,5%. Það skiptist þannig að 16% iðgjald fer í samtímalífeyrisgreiðslur en 2,5% iðgjald er hins vegar fjárfest í sjóðum, sem launþegar geta valið, þ.e. sá hluti heildariðgjaldsins byggist því á sjóðsmyndandi lífeyrissparnaði. Ef við gefum okkur launatekjur á ári að fjárhæð 2 m. ísl. kr., þá mun 320.000 kr. iðgjald (16%) fara í samtímagreiðslur (gegnumstreymi) og 50.000 kr. (2,5%) inn á einkareikning viðkomandi launamanns, sem viðbótarlífeyrissparnaður og sjóðsöfnun. Þetta 2,5% iðgjald er satt best að segja það sem er mest spennandi við hið nýja endurbætta sænska lífeyriskerfi. Sérstök stofnun PPM (Premiepensionsmyndigheten á sænsku; Premium Pension Authority á ensku) verður tengiliður milli launamannsins eða þess sem sparar og hinna fjölmörgu sjóða sem bjóðast til þess að annast varðveislu og ávöxtun á lífeyrissparnaðinum. Verður fljótlega sagt nánar frá hlutverki PPM og lagt mat á það hvort við getum eitthvað lært af frændum okkar Svíum í lífeyrismálum. Meira um það seinna.