Gerður Guðjónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga (LSS) í stað Jóns G. Kristjánssonar sem lætur af störfum í sumar vegna aldurs, en hann hefur verið framkvæmdastjóri sjóðsins frá stofnun hans árið 1998.
Gerður hefur gegnt stöðu fjármálastjóra Hafnarfjarðarbæjar frá árinu 2007. Hún hefur setið í stjórn LSS fyrir hönd Samband íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2010 og jafnframt verið formaður endurskoðunarnefndar sjóðsins.
Hún starfaði lengi hjá Grant Thornton endurskoðun og gegndi þar starfi forstöðumanns endurskoðunar- og gæðasviðs. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og er löggiltur endurskoðandi.